Norski vinnuréttardómstóllinn hefur nú í vikunni dæmt norska Alþýðusambandinu og Samtökum bæjarstarfsmanna í vil í máli sem snérist um það hvort kjarasamningsbundin aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga í Noregi stangist á við samkeppnisreglur.
Vorið 1999 ákváðu 11 norsk bæjarfélög að greiða ekki iðgjöld fyrir starfsmenn sína í Lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga (Kommunal Landspensjonskasse – KLP). Fleiri bæjarfélög fylgdu í kjölfarið. Launþegasamtökin norsku töldu hins vegar að um brot á aðalkjarsamningi milli aðila væri að ræða. Dómsniðurstöður voru þær að umræddir bæjarstarfsmenn skyldu vera áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga og er það reyndar í samræmi við sambærilegt álit EFTA-dómstólsins.
Að sögn Jan Davidsen, talsmanns Samtaka bæjarstarfsmanna í Noregi, þá er þessi dómur mjög mikilvægur, því með honum er fastbundið að lífeyrisréttur karla og kvenna skuli vera sá sami án tillits til kynjamunar eða aldurs launþega. Á frjálsum vátryggingamarkaði væri hins vegar dýrari iðgjöld fyrir konur en karla því konur lifa að meðaltali lengur en karlar.
Erna Solberg, ráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga, boðar hins vegar hugsanlegar lagabreytingar í þá átt að koma á samkeppni milli sjóða. Hún telur að dómurinn miðist aðeins við túlkun laganna í dag, sem komi ekki í veg fyrir að hægt sé að breyta forsendum með nýjum lagaákvæðum.
Geir Höin, lögfræðingur Samtaka norska bæjarstarfsmanna telur hins vegar að þessi dómur muni hafa þýðingu utan Noregs. Þetta mál hafi vakið alþjóðaathygli og sem vel hafi verið fylgst með bæði erlendis og í Noregi. Norski vinnuréttardómstóllinn hafi ótvírætt dæmt að ákvæði kjarasamninga um aðild að lífeyrissjóðum væri rétthærra en samkeppnisreglur.
Þegar þetta mál var rekið fyrir EFTA-dómstólnum óskaði Alþýðusamband Íslands eftir samvinnu við Samtök Atvinnulífsins. Saman fóru þessi samtök þess á leit við Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, að Ísland sendi dómstólnum skriflegar athugasemdir þar sem tekið yrði undir kröfu norska Alþýðusambandsins og Samtaka bæjarstarfsmanna. Með bréfi dags. 6. mars sl. 2001 tilkynnti fjármálaráðuneytið síðan að Ísland hefði orðið við þessum tilmælum og tekið undir þau sjónarmið sem fram koma í erindi ASÍ og SA.