Mikil og almenn þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði

Viðbótarlífeyrissparnaður hefur bæði reynst meiri og jafnari milli starfsstétta en áætlað var við gerð kjarasamninga, skv. úrvinnslu Samtaka atvinnulífsins á gögnum Kjararannsóknarnefndar. Einkum hefur mikil þátttaka verkafólks komið á óvart. Kostnaður atvinnulífsins er þegar orðinn um 4 – 4,5 milljarðar á ári, um einum og hálfum milljarði meiri en reiknað var með.

Í kjarasamningunum árið 2000 var tekið upp það nýmæli að vinnuveitendur skyldu greiða mótframlag gegn viðbótarframlögum launamanna til lífeyrissparnaðar. Frá miðju ári 2000 og til ársloka 2001 námu mótframlögin 1% gegn 2% sparnaði launamanns en á árinu 2002 hækkaði mótframlagið í 2%. Áður hafði verið sett í lög að viðbótarframlög launamanna, allt að 2% fyrst og síðar 4%, væru skattfrjáls.

Árið 2000 nam meðalframlag vinnuveitenda til lífeyrissparnaðar 6,7% af launum. Skýring þess hvers vegna framlagið er hærra en 6% má einkum rekja til félagsmanna Samvinnulífeyrissjóðsins auk kjarasamninga nokkurra tiltölulega fámennra stétta sem samið hafa um hærra framlag vinnuveitenda en almennt gerist.


Í mars 2001, þegar samningsákvæðin höfðu verið í gildi í 10 mánuði var mótframlag vinnuveitenda orðið 7,5% að meðaltali og hafði hækkað um 0,8%. Þetta er mun meiri aukning sparnaðar en gert var ráð fyrir í kjarasamningunum.


Í mars 2002 var framlag vinnuveitenda orðið 8,1% að meðaltali og aukning launakostnaðar orðin 1,4% á samningstímanum vegna viðbótarframlaga í lífeyrissjóði, eða 4-4,5 milljarðar króna á ársgrundvelli.


Það kemur bæði á óvart hve mikill sparnaðurinn er og hve jafn hann er eftir starfsstéttum. Algengast er að mótframlögin séu í kringum 1,5% en það má túlka sem svo að þrír af hverjum fjórum launamönnum í þessum stéttum hafi að jafnaði lagt fé til viðbótar lífeyrissparnaðar. Þá hefur verið talið var að þátttaka verkafólks í þessum sparnaði væri hverfandi, og mun minni en annarra stétta, en annað kemur í ljós skv. þessari könnun.


Gögn Kjararannsóknarnefndar benda til þess að þetta sparnaðarform hafi fengið mjög góðan byr enda fjárhagsleg hvatning mikil, sem og kynning lífeyrissjóða og banka. Launamenn hafa tekið vel við sér í byrjun og áhrifin af hækkun framlagsins úr 1% í 2% í ársbyrjun 2002 valdið því að fjölmargir hafi tekið ákvörðun um þátttöku. Gögn Kjararannsóknarnefndar benda til þess að 55% launamanna hafi í mars á þessu ári fengið framlög umfram 6% samanborið við 22% tveimur árum áður.




Sjá nánar heimasíðu SA: http:// www.sa.is