Mikið framboð hækkar ávöxtunarkröfu húsbréfa.

Svo virðist að mikið og viðvarandi framboð húsbréfa hafi hækkað ávöxtunarkröfu þeirra. Það er því beinlínis rangt að kenna lífeyrissjóðunum um hækkandi ávöxunarkröfu húsbréfanna.

Eitt af grundvallaratriðum húsbréfakerfisins er að við mikið og viðvarandi framboð húsbréfa, eins og verið hefur á annað ár, þá sé einmitt gert ráð fyrir að vextir hækki, húsbréfin lækki í verði og áhugi almennings á fasteignaviðskiptum muni almennt þverra. Þetta ástand slái á þensluna á fasteignamarkaði, þar sem eftirspurn eftir lánsfé dragist saman. Ein skýringin sem heyrst hefur af hverju að ávöxtunarkrafa húsbréfanna tók að hækka að ráði undir síðustu áramót er m.a. sú, að fram til þess tíma hafi viðskiptabankarnir keypt mikið af húsbréfum, enda högnuðust þeir vel á slíkum viðskiptum meðan ávöxtunarkrafan lækkaði og verðmæti bréfanna fór hækkandi. Þegar kom að því að viðskiptabankarnir vildu fara að losa við bréfin, reyndust fáir kaupendur sem skyndilega áttu að kaupa meira af húsbréfum en venjulega. Afleiðingin hafi verið hækkandi krafa húsbréfa undanfarna mánuði, sem keyrt hafi um þverbak síðustu daga. Útgáfa húsbréfa var mjög mikil á síðasta ári eða 31,5 miljarðar króna samanborið við 21,1 miljarðar krónar árið 1998. Aukning rúmlega 10 miljarðar króna. Nokkur hluti þessarar aukningar má rekja til skuldbreytinga á eldri húsbréfum úr 25 árum í 40 ár, en eftir sem áður hefur ríkt verulegt þensluástand á fasteignamarkaðinum, sem m.a. kemur fram í auknu framboði bréfa og hækkandi fasteignaverði. Aukið framboð má líka rekja til þess að með lækkandi ávöxtunarkröfu á síðasta ári hafi húsbréfin lengst af verið seld á yfirverði. Slíkt ástand hafi hvatt eigendur húsbréfa að selja þau. Lífeyrissjóðirnir eru eftir sem áður lang stærstu kaupendur húsbréfa og var eign þeirra í húsbréfum talin nema um 80 miljaðar króna í lok marsmánaðar s.l. Frá mars á síðasta ári þar til í mars á þessu ári hafa húsbréf í eignasafni lífeyrissjóðanna aukist að verðmæti um 9 miljarða króna og eru þó bréfin færð á kaupkröfu, en ekki ávöxtunarkröfu í bókhaldi sjóðanna. Því er ljóst að kaup lífeyrissjóðanna á húsbréfum hafa verið umtalsverð síðustu mánuðina. Hækkandi ávöxtunarkrafa húsbréfanna um þessar mundir er því ekki hægt að rekja til minnkandi kaupa lífeyrissjóðanna, heldur miklu frekar til aukins framboðs húsbréfa. Þegar þetta er skrifað er ávöxtunarkrafa húsbréfanna í flokki 98/1 6,45% og afföllin 14,26%. Fjárfestingatækifærin eru því mikil um þessar mundir miðað við þessa ávöxtunarkröfu húsbréfa samfara lækkun sem verið hefur á úrvalsvísitölu hlutabréfa á Verðbréfaþingi Íslands að undanförnu.