Landssamtök lífeyrissjóða hafa ákveðið að senda lífeyrissjóðunum til umsagnar tillögur sínar um meðferð heilsufarslegra upplýsinga hjá sjóðunum. Samkvæmt tillögunum er starfsfólki lífeyrissjóðanna ekki heimilt að afhenda umsækjanda heilsufarsleg gögn nema með leyfi læknis.
Við meðferð heilsufarslegra upplýsinga fyrir lífeyrissjóði skal þess gætt að þær séu: 1. Unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. 2. Fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Frekari vinnsla í fræðilegum tilgangi telst ekki ósamrýmanleg að því tilskildu að viðeigandi öryggis sé gætt. 3. Nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. 4. Áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta. 5. Varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. Varðveita skal læknisfræðileg gögn a.m.k. jafn lengi og viðkomanda gögn eru talin þáttur í úrskurði lífeyrissjóðins til greiðslu lífeyris. Að öðru leyti gilda almennar fyrningarreglur um kröfu á greiðslu lífeyris. Þá eru ákvæði í tillögunum um að starfsfólk lífeyrissjóðs sé ekki heimilt að afhenda umsækjanda eða umboðsmanni hans heilsufarsleg gögn sem hann varða nema með leyfi trúnaðarlæknis sjóðsins. Ef trúnaðarlæknir lífeyrissjóðs telur að það þjóni ekki hagsmunum umsækjanda að afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit af heilsufarslegum gögnum hjá sjóðnum, skal hann þá afhenda landlækni slík gögn án tafar til frekari afgreiðslu. Um skyldu læknis og annarra sem færa sjúkraskrár til þess að afhenda umsækjanda eða umboðsmanni hans afrit skrárinnar í heild eða að hluta fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.