Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefur í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sett af stað tilraunaverkefni með nýtt endurhæfingarúræði fyrir örorkulífeyrisþega hjá Janus Endurhæfing ehf. Stjórn LL hvetur lífeyrissjóðina að taka þátt í verkefninu.
Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefur sent erindi til Landssamtaka lífeyrissjóða varðandi endurhæfingu örorkulífeyrisþega en sjóðurinn hefur í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið sett af stað tilraunaverkefni með nýtt endurhæfingarúræði fyrir örorkulífeyrisþega hjá Janus Endurhæfing ehf. Í umræddu erindi Sameinaða lífeyrissjóðsins var spurt um það, hvort áhugi væri fyrir því að Landssamtök lífeyrissjóða mundu mæla með því við lífeyrissjóðina að þeir kæmu að málinu með einhverjum hætti. Á stjórnarfundi LL fyrir skömmu samþykkt að beina þeim tilmælum til lífeyrissjóða innan samtakanna að taka jákvæða afstöðu til málsins, m.a. með því að kanna möguleika í samráði við trúnaðarlækni viðkomandi lífeyrissjóða að senda örorkulífeyrisþega í endurhæfingu hjá Janus ehf. og taka að öðru leyti þátt í þeim kostnaði sem fylgdi endurhæfingunni.