Lífeyrissjóðurinn Framsýn: Neikvæð 0,6% raunávöxtun í fyrra.

Ávöxtun sjóðsins var 3,6% á árinu 2000 sem jafngildir að raunávöxtunin var neikvæð um 0,6%. Slök ávöxtun endurspeglast af því sem er að gerast á verðbréfamörkuðum. Þrátt fyrir mikla sveiflu á ávöxtun hlutabréfa á liðnu ári bera þau uppi ávöxtun sjóðsins til lengri tíma. Þannig nam fimm ára raunávöxtun sjóðsins 7,55%, sem má aðallega rekja til hlutabréfaeignar sjóðsins.

Lægri ávöxtun má þó einna helst rekja til neikvæðrar ávöxtunar hlutabréfa en þau lækkuðu bæði hér heima og erlendis, eins og kunnugt er. Veikari staða krónunnar kom í veg fyrir að lækkun erlendu verðbréfanna yrði meiri í íslenskum krónum talið. Lífeyrisréttindi sjóðfélaga voru hækkuð verulega 1. júlí í fyrra. Bæði voru lífeyrisgreiðslurnar hækkaðar um 7% og marföldunarstuðull lífeyris var hækkaður um 7,14%. Áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga sem ekki voru farnir að njóta lífeyris hækkaði líka um 7%. Samkvæmt mati tryggingafræðings sjóðsins jafngilti þessi hækkun 6.856 m.kr. Alls greiddu rúmlega 30 þúsund sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins á síðasta ári sem er hækkun um 0,6%. Í árslok voru rúmlega 128 þúsund sjóðfélagar með inneign í sjóðnum. Eignir sjóðsins námu rúmlega 48 miljörðum króna í árslok, sem er aukning um 2,5 miljarða króna. Kostnaður nam einungis 0,15% af eignum. Ársfundur sjóðsins verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík, 24. apríl n.k. kl. 17.00.