Lífeyrissjóður Vesturlands hefur birt ársuppgjör vegna síðasta árs. Nafnávöxtun sjóðsins var 7% sem jafngildir –1,5% raunávöxtun. Hrein raunávöxtun þegar búið er að taka tillit til rekstrarkostnaðar er –1,6%.
Í árslok 2001 var hrein eign til greiðslu lífeyris 7,9 milljarðar en það er hækkun um 9,9% á milli ára. Iðgjöld ársins námu 459 milljónum, sem er 11,5% aukning frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 250 milljónum, en það er 12,5% hækkun frá fyrra ári. Tryggingafræðileg úttekt í lok ársins 2001 sýnir að sjóðurinn á 4,5% umfram eignir miðað við áfallnar skuldbindingar. Heildarskuldbinding umfram eignir er hins vegar 2,2%. Þetta er heldur betri staða en á árinu 2000 en þá var heildarskuldbinding umfram eignir 2,7%, sem eru góð tíðindi í ljósi þess að tvö síðustu ár hafa verið erfið á verðbréfamörkuðum og ávöxtun sjóðsins því lakari en fyrri ár. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar fyrir árin 1997 til 2001 er 4,7%. Ársfundur Lífeyrissjóðs Vesturlands verður haldinn 23. apríl n.k. kl. 17.00 í Hótel Stykkishólmi.