Íslensk verðbréf hf. og Lífeyrissjóður Vestfirðinga hafa gengið frá samkomulagi um að Íslensk verðbréf hf. annist stýringu á hluta verðbréfaeignar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Í framhaldinu er stefnt á að auka samstarf þessara aðila enn frekar.
Íslensk verðbréf hf. munu opna starfsstöð á Ísafirði innan skamms og verður aðsetur félagsins í húsnæði Sparisjóðs Vestfirðinga á Ísafirði. Íslensk verðbréf hf. var stofnað árið 1987 og er í eigu sparisjóða og lífeyrissjóða víðsvegar um land, þ.m.t. Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Íslensk verðbréf hf. er með höfuðstöðvar sínar á Akureyri og er eina löggilta verðbréfafyrirtækið utan höfuðborgarsvæðisins. Gerður hefur verið samskonar samningur við Lífeyrissjóð Norðurlands og einnig hafa verið gerðir nokkrir samningar við aðra lífeyrissjóði um sérgreind eignasöfn á undanförnum mánuðum. Að sögn Guðrúnar Guðmannsdóttur framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs Vestfirðinga er “markmiðið með þessu samstarfi við Íslensk verðbréf hf. m.a. að byggja upp öfluga fjármálaþjónustu á Vestfjörðum ásamt því að fela sérfræðingum á verðbréfamarkaði umsýslu á eignum Lífeyrissjóðs Vestfirðinga. Með þessum samningi tryggjum við grundvöll fyrir opnun starfsstöðvar á vegum Íslenskra verðbréfa hf. á Ísafirði og sá grundvöllur ætti að leiða af sér betri fjármálaþjónustu fyrir bæði sparifjáreigendur og fyrirtæki og stofnanir á svæðinu.