Lífeyrissjóður sjómanna áfrýjar dómi héraðsdóms til Hæstaréttar.

Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna hefur ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 5. júní í máli sjóðsins gegn íslenska ríkinu. Í dómsorði segir að íslenska ríkið skuli vera sýkn af öllum kröfum sjóðsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ríkið af kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna um greiðslu á rúmlega 1,3 milljörðum króna í skaðabætur en sjóðurinn taldi að ríkisvaldið hafi skert eignir hans með því að breyta lögum um sjóðinn árið 1981 á þann veg að skylda sjóðinn til þess að greiða sjóðfélögum á aldrinum 60-65 ára óskertan lífeyri. Þessi skylda hafi ekki verið felld niður fyrr en með lögum árið 1999. Sjóðurinn taldi að auknar greiðslur og greiðsluskuldbindingar af þessum sökum næmu 1.364.900.000 krónum. Héraðsdómur taldi hins vegar að löggjafanum væri heimilt að lögbinda starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna, þar með að kveða á um skyldur sjóðsins sem lögaðila og hver skuli vera réttindi og skyldur sjóðfélaga. Með lögum sem afnámu skerðingu á lífeyri þeirra sem hófu töku hans fyrir 65 ára aldur voru þeim hópi fengin aukin réttindi fram yfir þá sem tóku lífeyri með sama hætti á gildistíma fyrri laga. Um hafi í raun verið að ræða tilfærslu réttinda á milli félaga í Lífeyrissjóði sjómanna og þyki hún ekki vera þess eðlis að sjóðurinn hafi með henni verið skyldaður til þess að láta eign sína af hendi í skilningi stjórnarskrárinnar.