Lífeyrissjóður lækna tekur upp aldurstengt réttindakerfi og eykur lífeyrisréttindin.

Á ársfundi Lífeyrissjóðs lækna sem haldinn var fyrir skömmu var samþykkt að taka upp aldurstengt réttindakerfi jafnframt því sem ákveðið var að auka áunnin réttindi sjóðfélaga um 45%. Ársfundurinn var sá fjölmennasti í sögu sjóðsins og voru tillögurnar samþykktar með öllum greiddum atkvæðum.

Raunávöxtun Lífeyrissjóðs lækna árið 1999 var 16,3% en nafnávöxtun var 22,9%. Síðustu fimm ár hefur raunávöxtun lífeyrissjóðsins verið að jafnaði 10,4% á ári sem verður að teljast mjög góður árangur. Heildareignir í árslok 1999 voru 11,3 milljarðar og stækkaði sjóðurinn um 2,5 milljarða á árinu eða um 28,4%. Iðgjöld voru 500 milljónir en lífeyrisgreiðslur voru 92 milljónir. Í lok ársins 1999 var gerð tryggingafræðileg úttekt á fjárhagsstöðu Lífeyrissjóðs lækna. Miðað við 3,5% raunávöxtun voru eignir sjóðsins 3,9 milljarðar umfram áfallnar skuldbindingar eða 48%. Hins vegar versnaði staða sjóðsins um 2,2 milljarða við það að reikna framtíðarskuldbindingu vegna virkra sjóðfélaga en þá lækkuðu eignir umfram skuldbindingar niður í 1,7 milljarða eða 8% af heildarskuldbindingum. Af þessum sökum var talið brýnt að taka upp aldurstengt réttindakerfi þannig að framtíðariðgjöld standi undir þeim skuldbindingum sem verða til vegna þeirra. Í aldurstengdum lífeyrissjóði er tekið tillit til ávöxtunartíma iðgjalda og ráðast lífeyrisréttindi af aldri þegar iðgjald er greitt. Helstu rökin fyrir aldurstengdu réttindakerfi eru eftirfarandi: - Afkoma lífeyrissjóðsins er óháð aldurssamsetningu hóps. - Hver sjóðfélagi fær réttindi í hlutfalli við sparnaðartíma iðgjalda. - Sjóðfélagar geta hætt fyrr að vinna án þess að missa af "verðmætustu" árunum. Í fyrra réttindakerfi fengu sjóðfélagar meiri lífeyrisrétt við hærri aldur þannig að segja má að kerfið hafi ýtt undir langa starfsævi en stefna læknasamtakanna er að skapa þau skilyrði að lækka eftirlaunaaldur lækna. - Sjóðfélagar geta greitt viðbótariðgjald (meira en 11% af launum) til Lífeyrissjóðs lækna og aukið þannig lífeyrisréttindi sín í samtryggingarsjóði. - Hægt verður að úthluta eignum umfram skuldbindingar árlega til sjóðfélaga. Með aldurstengdu réttindakerfi verður auðveldara að stilla af réttindi sjóðfélaga m.t.t. eigna sjóðsins þar sem ekki er lengur þörf á að eiga varasjóð vegna hlutfallslegrar breytingar á aldurssamsetningu hópsins. Um leið og tekið verður upp aldurstengt réttindakerfi verður gerð leiðrétting á áunnum réttindum sjóðfélaga þar sem lífeyrisréttindi munu ávinnast í framtíðinni með öðrum hætti en var. Til að jafna áhrifin af kerfisbreytingunni verða réttindi allra sjóðfélaga reiknuð aftur eins og þeir hefðu greitt í aldurstengdan lífeyrissjóð frá upphafi. Síðan verða réttindi aukin hjá þeim sem hefðu áunnið sér meiri réttindi með þessu móti en réttindi annarra eru óbreytt. Þessi leiðrétting nemur 475 milljónum en eftir hana verða síðan áunnin réttindi allra sjóðfélaga aukin um 45% þar sem iðgjöld og framtíðarskuldbindingar verða í jafnvægi. Aukning réttinda kostar 3,8 milljarða og verða eignir sjóðsins eftir það 227 milljónir umfram heildarskuld-bindingar sjóðsins eða 1% af skuldbindingum.


Fréttatilkynning frá Lífeyrissjóði lækna.