Lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar kaupa kjölfestuhlut í Högum

Arion banki hefur selt dreifðum hópi lífeyrissjóða og öðrum fagfjárfestum 34% í Högum ásamt kauprétti að 10% viðbótarhlut. Kaupverð er 4,1 milljarður. Skráning í kauphöll er fyrirhuguð síðar á árinu.
Búvellir slhf., félag í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, hefur fest kaup á 34% hlutabréfa í Högum, eða 35,3% af útistandandi hlutum í félaginu. Að auki hefur félagið samið um kauprétt á 10% útgefinna hlutabréfa til viðbótar á hærra verði. Seljandi er Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem á eftir viðskiptin 64,1% útistandandi hluta í Högum. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Kaupverðið er 4.140 milljónir króna. Á félaginu hvíla nettó vaxtaberandi skuldir að fjárhæð um 12,5 milljarðar króna miðað við efnahagsreikning félagsins 30. nóvember síðastliðinn og er heildarvirði félagsins samkvæmt því rúmir 24 milljarðar króna. Kaupverðið nemur 10 krónum á hlut en gengi samkvæmt kaupréttinum er 10% hærra.

 
Stærstu eigendur Búvalla eru Hagamelur ehf. (félag í eigu Hallbjörns Karlssonar, Árna Haukssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar), Gildi lífeyrissjóður, SÍA I (fagfjárfestasjóður undir stjórn rekstrarfélagsins Stefnis, en eigendur SÍA I eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins) og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir ÍS-5. Aðrir eigendur Búvalla eru Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf., fjárfestingarsjóðurinn Stefnir Samval, séreignalífeyrissjóðirnir Vista og Lífeyrisauki, Miranda ehf. (sem er í eigu Berglindar Jónsdóttur) og Draupnir fjárfestingafélag (sem er í eigu Jóns Diðriks Jónssonar). Enginn hlutur er stærri en svo að svari til 8,5% eignarhlutar í Högum. Kaupin eru að fullu fjármögnuð með eiginfjárframlögum.

Samningurinn nú er mikilvægur áfangi í söluferli Arion banka á hlut sínum í Högum, en bankinn tilkynnti í október síðastliðnum áform um að selja kjölfestuhlut í Högum í opnu söluferli og jafnframt að bankinn myndi taka til skoðunar öll tilboð sem bærust í eignarhlut hans í félaginu. Bankanum bárust viðunandi tilboð bæði í kjölfestuhlut og í félagið allt, en í kjölfarið var gengið til samningaviðræðna við Búvelli sem áttu hagstæðasta tilboðið. Næsta skref söluferlisins er að undirbúa skráningu Haga í kauphöll sem fyrirhugað er að óska eftir síðar á árinu. Í aðdraganda skráningar mun Arion banki bjóða fagfjárfestum og almennum fjárfestum að kaupa hlutabréf í Högum. Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með þessu ferli.