Leiðbeinandi reglur um endurgreiðslur iðgjalda til erlendra ríkisborgara.

Í upphafi þessa árs rituðu Landssamtök lífeyrissjóða bréf til Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga með ósk um að félagið myndi í samvinnu við LL móta reglur um endurgreiðslur til erlendra ríkisborgara. Nú hefur félagið lagt fram leiðbeinandi reglur um endurgreiðslur til erlendra ríkisborgara, sem stjórn LL hefur samþykkt fyrir sitt leyti.

Eins og kunnugt er, takmarkaðist heimildin áður eingöngu við að endurgreiða iðgjaldahluta launþegans, almennt við 4% af iðgjaldagrunni. Með lífeyrissjóðalögunum er nú hins vegar ekki heimilt “að takmarka endurgreiðsluna við tiltekinn hluta iðgjaldsins nema á tryggingafræðilega réttum forsendum”, eins og segir í lögunum. Ljóst er að þetta ákvæði laganna hefur að vonum vafist mjög mikið fyrir starfsfólki lífeyrissjóðanna, þegar kom að endurgreiðslu iðgjalda til erlendra ríkisborgara. Reglurar eru tiltölulega einfaldar. 1) Ef iðgjaldagreiðslutíminn er ekki nægjanlegur (oftast undir þremur árum), þannig að réttur til framreiknings vegna örorkulífeyris, hefur ekki stofnast, skal endurgreiða viðkomandi erlendum ríkisborgara allt iðgjaldið (oftast 10% iðgjald) með verðtryggingu, en án vaxta. 2) Ef réttur hefur hins vegar stofnast til framreiknings örorku, þar sem iðgjaldagreiðslutíminn er nægjanlegur (oftast meira en þrjú ár), skal endurgreiðsluhlutfallið miðast við aldur hins erlenda ríkisborgara við endurgreiðsluna. Endurgreiða skal með verðtryggingu en án vaxta. Eðlilegt er að í öllum tilvikum taki lífeyrissjóðurinn hóflegt afgreiðslugjald vegna endurgreiðslunnar. Þá ber að hafa í huga, að ef viðkomandi ríkisborgari hefur getað dregið iðgjaldahluta sinn frá gjaldstofni í staðgreiðslu, þá ber honum með sama hætti að greiða staðgreiðsluskatt við endurgreiðsluna. Í öllum tilvikum ber hinum erlenda ríkisborgara að greiða skatt af endurgreiddu iðgjaldi, sem er umfram hans eigin iðgjaldahluta. Ef um er að ræða umtalsverð lífeyrisréttindi, t.d. iðgjöld vegna lengri tíma en 5 ár, er hins vegar eðilegt að fá álit tryggingafræðings á hinum tryggingafræðilegu forsendum endurgreiðslunnar. Ekki er heimilt að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem byggist á þeirri reglu að ekki megi mismuna íbúum innan EES. Þar sem Íslendingar fá ekki endurgreidd lífeyrisiðgjöld úr íslenskum lífeyrissjóðum, er því með sama hætti ekki heimilt að endurgreiða erlendum ríkisborgurum innan annarra landa EES Þá skal að lokum tekið fram að lífeyrissjóðum ber ekki skylda að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara, sem hverfa af landi brott, heldur er einungis um að ræða heimildarákvæði.