Krónan hefur styrkst um 16,9% gagnvart dollar frá áramótum.

Ein ástæðan fyrir því að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa lækkað á síðustu mánuðum má rekja til þess að íslenska krónan hefur styrkst umtalsvert frá áramótum gagnvart öðrum gjaldmiðlum, en einnig hafa verðlækkanir á erlendum verðbréfamörkuðum ekki síður haft sitt að segja.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum voru erlendar eignir lífeyrissjóðanna um 115 milljarðar í lok júní s.l. sem er um 17,5% af heildaeignum sjóðanna. Til samanburðar námu erlendar eignir sjóðanna um 137 milljarðar í árslok 2001 eða rúmlega 21% af heildareignum. Lækkunin nemur því tæpum 22 milljörðum frá áramótum. Tvær megin skýringar eru fyrir þessari lækkun. Í fyrsta lagi hefur krónan styrkst verulega gagnvart öðrum gjaldmiðlum á þessu ári, eftir að hún hafði veikst umtalsvert á árunum 2000 og 2001. Þannig var gengi bandaríkjadollars 103,20 kr. í árslok 2001 en er í dag 85,78 kr. Styrking króunnar gagnvart dollar frá áramótum er því 16,9%, en 15,9% ef miðað er við lok júní s.l. Í öðru lagi hafa verðlækkanir á erlendum verðbréfamörkuðum verið miklar á þessu ári. Frá síðustu áramótum hefur Dow Jones vísitalan t.d. lækkað um 7,8% fram á mitt þetta ár og um 11,3% miðað við daginn í dag. Nasdaq vísitalan hefur lækkað frá áramótum um 24,9% fram á mitt þetta ár og um 29,3% til þessa dags. FTSE 100 vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið og bandarísku vísitölurnar, en þó um 16% á þessu ári. Lífeyrisjóðirnir hafa brugðist við þessum lækkunum með margvíslegum hætti. Þannig hafa hafa lífeyrissjóðirnir dregið mjög úr erlendum verðbréfakaupum og hófst sú þróun reyndar strax á árinu 2000. Jafnframt hafa sumir sjóðir gert framvirka gjaldeyrissamninga og vilnanir til að verja stöðu sína gagnvart gengisbreytingum. Þá má nefna að sumir sjóðir hafa innleyst eignir erlendis, þegar krónan var sem veikust og þegar hlutabréfamarkaðir voru hærri. Þá hafa lífeyrissjóðir að einhverju marki lagt meiri áherslu á vísitölubunda hlutabréfasjóði en áður var og þannig takmarkað áhættuna. Þrátt fyrir slæmt gengi á erlendum verðbréfamörkuðum á undanförnum misserum, þá ber að hafa í huga að lang stærsti hluti eigna íslensku lífeyrissjóðanna er í innlendum skuldabréfum, sem hafa gefið mjög góða og trygga ávöxtun á umliðnum árum, en jafnframt má geta þess að íslenska úrvalsvísitalan Icex-15 hefur hækkað um 9,6% frá áramótum. Þannig er ljóst að íslensk hlutabréf hafa gefið ágæta ávöxtun á þessu ári.