Kostnaður á einstakan örorkulífeyrisþega getur numið tugum milljóna króna.

Á málþingi um starfsendurhæfingu, sem haldið var í síðasta mánuði, kom fram að heildarkostnaður vegna orkutaps sjóðfélaga getur numið tugum milljóna króna og langt umfram greidd iðgjöld.

Reiknað var núvirði væntanlegra lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóðs fyrir átta lífeyrisþega á aldrinum 25 ára til 55 ára. Annars vegar var reiknað núvirði örorkulífeyris til 67 ára aldurs og hins vegar ellilífeyris frá þeim tíma. Eftirfarandi kom fram: 25 ára gamall sjóðfélagi sem verður fyrir 100% orkutapi og hefur greitt í lífeyrissjóð frá 20 ára aldri fær 105 þús. kr.á mánuði í örorkulífeyri frá sjóðnum eða samtals 29,8 m.kr. ef hann er karl, en 30,7 m.kr. ef hann er kona. Mismunurinn skýrist á lengri meðalævilengd kvenna. 35 ára gamall sjóðfélagi sem verður fyrir 100% orkutapi og hefur greitt í lífeyrissjóð frá 20 ára aldri fær 111 þús.kr. kr. á mánuði í örorkulífeyri frá sjóðnum eða samtals 29,0 m.kr. ef hann er karl, en 30,2 m.kr. ef hann er kona. 45 ára gamall sjóðfélagi sem verður fyrir 100% orkutapi og hefur greitt í lífeyrissjóð frá 20 ára aldri fær 116 þús.kr. kr. á mánuði í örorkulífeyri frá sjóðnum eða samtals 26,6 m.kr., ef hann er karl, en 28,2 m.kr. ef hann er kona. 55 ára gamall sjóðfélagi sem verður fyrir 100% orkutapi og hefur greitt í lífeyrissjóð frá 20 ára aldri fær 119 þús.kr. kr. á mánuði í örorkulífeyri frá sjóðnum eða samtals 22,5 m.kr. ef hann er karl, en 24,5 m.kr. ef hann er kona. Í þeim dæmum sem tekin voru, þá var miðað við 100% orkutap og að sjóðfélagi hafi greitt lífeyrissjóð frá 20 ára aldri af 200 þús. kr. mánaðarlaunum. Miðað var við lífeyrissjóð með jafna réttindaávinnslu og 10% lágmarksiðgjald. Lífeyrisréttindi miðast við 1,5% af launum á ári. Framreikningur réttinda var til 67 ára aldurs, þ.e. að auk áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélagans er bætt við þeim réttindum, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér, ef hann hefði haldið áfram að greiða iðgjöld til sjóðsins til 67 ára aldurs og þá af sömu mánaðarlaunum. Ekki var tekið inn í dæmið barnalífeyrisgreiðslur, svo og að réttindaávinnsla margra lífeyrissjóða er meiri en 1,5% á ári. Miðað er við að réttur til framreiknings hafi stofnast hjá viðkomandi sjóði. Þessi dæmi og reyndar mörg önnur sýna að það skiptir miklu máli að greitt sé í lífeyrissjóð og samtrygging sjóðfélaga margborgar sig, sérstaklega ef menn verða fyrir varanlegum tekjumissi vegna slyss eða sjúkdóms, sem leiðir til orkutaps.