Hafin er kortlagning velferðarkerfið á Íslandi, þ.e. skrá eins og kostur er tiltækar upplýsingar um bætur, styrki og hlunnindi, sem veitt eru til þess að ná fram almennri velferð. Markmiðið með kortlagningunni er að átta sig á velferðarkerfinu og fá yfirlit yfir kosti þess og galla. Sjá nánar vefslóðina www.baetur.is
Til velferðarkerfisins teljast stofnanir, samtök og fyrirtæki sem ætlað er að veita skilgreinda tryggingarvernd, styrki, þjónustu, hlunnindi, jöfnun eða eingreiðslu. Þeim er þannig ætlað að bæta þegnum samfélagsins áföll sem þeir verða fyrir, eða bæta félagslega stöðu þeirra í samfélaginu. Hér má nefna t.d. Tryggingastofnun, sveitarfélög, lífeyrissjóði, sjúkrasjóði, atvinnuleysistryggingar, LÍN og skattkerfið. Verkefnið verður unnið af félaginu Bætur, félagi áhugamanna um kortlagningu bótakerfisins. Til að hefja þessa umræðu eru fyrstu drög sett fram á baetur.is en þeim er ekki ætlað að vera endanleg eða tæmandi. Allir, almenningur jafnt sem sérfræðingar, geta tekið þátt í þessari umræðu með því að taka þátt í spjallrásinni sem er á vefnum. Einnig getur fólk sent tillögur og athugasemdir til ritnefndar. Velferðarkerfið er orðið mjög flókið og erfitt að átta sig á einstökum þáttum þess og samspili þeirra. Afleiðingin er sú að umræðan snýst oft um einn þátt velferðarkerfisins án þess að þátttakendur geri sér fulla grein fyrir hvernig aðrir þættir hafa áhrif á niðurstöðuna. Einnig kann fólk, sem á rétt í velferðarkerfinu, illa á kerfið og eflaust eru einhver dæmi þess að fólk viti ekki af þeim bótum, sem það á rétt á. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að draga upp mynd af velferðarkerfinu en þær hafa allar mislukkast vegna þess hve hratt það breytist og hversu víða réttindi leynast. Ætlunin er að safna saman í eina bótaskrá öllum hugsanlegum bótum og hlunnindum sem mynda velferðarkerfið. Þegar hefur verið safnað miklum upplýsingum en ætla má að enn vanti eitthverjar bætur eða hlunnindi. Þeir sérfræðingar, sem greiða út bætur, eða veita hlunnindi, geta þá skoðað það svið sem þeir sinna og þekkja í hörgul og geta leiðrétt og bætt við upplýsingum með því að koma með ábendingar til ritnefndar. Oft getur verið spurning um hvort t.d ákveðnar tryggingar eru hluti af velferðarkerfinu og þetta kallar án tvímæla á að bætur og hlunnindi velferðarkerfisins séu skýrt skilgreindir þættir. Lögð hefur verið nokkur vinna í að setja saman skilgreiningar. Ennfremur þarf að flokka bætur og hlunnindi eftir eðli þess sem verið er að bæta og hefur sú vinna ennfremur farið fram. Þá hefur verið safnað saman mörgum atriðum, sem varða velferðarkerfið, t.d. fylgir með listi yfir þá aðila, sem greiða út bætur eða veita hlunnindi. Þá fylgja með ákvæði helstu laga. Öll þessi atriði; bótaskráin, skilgreiningar, flokkun og einstakar bætur eru til umræðu og sett fram án þess að gera kröfu til að vera tæmandi eða hafin yfir gagnrýni. Það er einmitt markmið þessa verks að koma á gagnrýnni og málefnalegri umræðu um velferðarkerfið og að allir geti komið að þeirri umræðu. Með heimasíðunni fylgja spjallþræðir, þar sem fólk getur rætt um og komið á framfæri spurningum og skoðunum um ýmsa þætti. T.d. skaðabótalögin eða stöðu aldraðra. Hafi einhver athugasemdir við einhvern þátt heimasíðunnar, tillögur um breytingar eða viðbætur, getur hann sent ritnefndinni tölvupóst ásamt rökstuðningi. Þessum umræðum, sem í sjálfu sér eru án tímatakmarkana vegna þess að velferðarkerfið er í sífelldri endurskoðun, er ætlað að standa til haustsins. Þá er ætlunin að slá striki undir stöðuna og vera með bótaskrá, sem gefur eins góða mynd af velferðarkerfinu og hægt er. Í kjölfarið verði farið að vinna úr og lagfæra þá hnökra, sem kortlagningin kann að leiða í ljós en það er í eðli sínu pólitísk umræða. En heimasíðan gæti áfram verið vettvangur umræðu um velferðarkerfið og hlutverk þess. Heimasíðan www baetur.is ætti nú þegar að gagnast þeim, sem eru að kanna hvar ákveðinn einstaklingur gæti átt rétt, t.d. vegna slyss. Í framtíðinni verður hugað að því hvort unnt er að nota þennan vettvang til að fólk geti leitað að persónulegum rétti sínum hjá þeim aðilum, sem veita réttindi.