Jónas Dalberg, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Verðbréfamiðlunar Framsýnar. Hann tekur við starfinu eigi síðar en 1.september n.k.
Aðilar að Verðbréfamiðlun Framsýnar ehf. eru þrír lífeyrissjóðir, þ.e. Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Lífeyrissjóður Norðurlands og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Stefnt er að því að fleiri lífeyrisjóðir geti gerst eignaraðilar. Verðbréfamiðlun Framsýnar hefur fengið aðild að Verðbréfaþingi Íslands. Hlutafé félagsins er nú tíu milljónir króna en á aðalfundi fyrirtækisins, sem haldinn var þann 3. maí s.l., var samþykkt að auka hlutafé upp í 75 milljónir króna. Jafnframt var ákveðið að breyta fyrirtækinu í verðbréfafyrirtæki með öllum réttindum og skyldum sem því fylgir. Eins og áður segir hefur Jónas Dalberg, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands, verið ráðinn framkvæmdastjóri Verðbréfamiðlunar Framsýnar ehf. Jónas, sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vesturlands frá árinu 1992, hefur náð góðum fjárfestingarárangri fyrir sjóðinn. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar Lífeyrissjóðs Vesturlands s.l. fimm ár nam 11,2% á ári, sem er með því besta sem þekkist hjá lífeyrissjóðunum.