Fyrir skömmu var vitnað hér í LL-FRÉTTUM í könnun EFRP, Sambands lífeyrissjóðasamtaka innan EES, ásamt Sviss, um ýmsar stærðir í lífeyrissjóðakerfinu vegna áranna 1997 og 1998. Þar kemur m.a. fram að eignir íslensku lífeyrissjóðanna námu 71,3% af landsframleiðslu á árinu 1998 og er þetta hlutfall með því hæsta í Evrópu.
Eins og við mátti búast er Holland í forystunni, en þar námu eignir lífeyrissjóðanna um 113% af landsframleiðslu 1997 og nærri því 122% á árinu 1998. Sviss siglir í kjölfarið með svipuð hlutföll eða með eignir í lífeyrissjóðakerfinu sem eru 104% af landsframleiðslu 1997 og 116% á árinu 1998. Næst kemur Bretland með 76% á árinu 1997 og 91% 1998 og síðan ÍSLAND með 67,2% 1997 og 71,3% 1998. Ef öll löndin innan EES, ásamt Sviss, eru skoðuð, þá nam aukning eigna lífeyrissjóðanna miðað við landsframleiðslu yfir 3% á milli áranna 1997 og 1998. Næstum því öll löndin sýndu aukningu á milli ára, að undanskildu Frakklandi og Írlandi. Sérstaklega athygli vekur þó hlutfall eigna lífeyrissjóðanna m.v. landsframleiðslu í fjórum löndum, þ.e. Sviss, Bretlandi og Hollandi og ÍSLANDI. Við Íslendingar erum því meðal forystuþjóða í Evrópu þegar litið er til eigna lífeyrissjóðanna sem hlutfall af landsframleiðslu.