Hverjir kannast við þessa lífeyrissjóði?

Kannast einhver við Lífeyrissjóð Nótar, félags netagerðarfólks? Varla, enda var hann sameinaður Lífeyrissjóði málm- og skipasmiða fyrir nokkrum árum. Sá sjóður sameinaðist hins vegar Lífeyrissjóði byggingamanna og úr varð Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Sjá nánar um sameiningarferli lífeyrissjóðanna.

Samkvæmt lífeyrissjóðaskrá frá árinu 1978 voru á því ári starfandi 96 lífeyrissjóðir. Þeir eru núna aðeins 55 talsins. Hvað varð um þá lífeyrissjóði, sem ekki eru lengur á skrá? Við rennum í þetta skipti aðeins yfir helminginn af skránni frá árinu 1978 og leitum skýringa: Almennur lífeyrissjóður iðnaðarmanna sameinaðist Lífeyrissjóðnum Framsýn. Lífeyrissjóðurinn Björg, Húsavík, gekk til samstarfs við fleiri lífeyrissjóði á Norðurlandi og úr varð stofnun Lífeyrissjóðs Norðurlands. Eftirlauna- og örorkubótasjóður RAFHA lagði upp laupana og hætti starfsemi. Eftirlaunasjóður Olíufélagsins Skeljungs sameinaðist Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Lífeyrissjóður apótekara- og lyfjafræðinga sameinaðist Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Lífeyrissjóður Arkitektafélags Íslands og Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands sameinuðust í Lífeyrissjóði arkitekta og tæknifræðinga. Lífeyrissjóður ASB og BSFÍ (afgreiðslustúlkur í brauð- og mjólkurbúðum og Bakarasveinafélag Íslands) sameinaðist fyrst Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar, en er nú hluti af Lífeyrissjóðnum Framsýn. Lífeyrissjóður barnakennara sameinaðist Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóður byggingamanna og Lífeyrissjóður málm- og skipasmiða sameinuðust í nýjum sjóði, Sameinaða lífeyrissjóðnum. Lífeyrissjóður byggingariðnaðarmanna í Hafnarfiði er nú hluti Sameinaða lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóður blaðamanna sameinaðist í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Lífeyrissjóður bókbindara og Lífeyrissjóður prentara sameinuðust í Lífeyrissjóði bókagerðarmanna, sem nú er hluti Sameinaða lífeyrissjóðsins. Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar gekk inn í Lífeyrissjóðinn Framsýn. Lífeyrissjóður Félags framreiðslumanna er nú hluti af Lífeyrissjóðnum Lífiðn. Lífeyrissjóður Félags garðyrkjumanna gekk inn í Sameinaða lífeyrissjóðinn. Lífeyrissjóður Félags starfsfólks í veitingahúsum er hluti af Lífeyrisjóðnum Framsýn. Sama á við um Lífeyrissjóð Hlífar og Framtíðarinnar í Hafnarfirði. Lífeyrissjóður Landssambands vörubifreiðastjóra sameinaðist Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar sem nú er hluti Lífeyrissjóðsins Framsýnar, eins og áður segir. Lífeyrissjóður lögmanna gekk inn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Seinna höldum við áfram hér í LL-FRÉTTUM að rifja upp afdrif fleiri lífeyrissjóða, sem ekki eru lengur starfandi.