Hugmyndum Péturs H. Blöndals vísað á bug.

Pétur H. Blöndal, alþingismaður, hefur lagt fram tillögu i efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þess efnis að skylda lífeyrissjóðina að senda sjóðfélögum upplýsingar um verðmæti áunninna tryggingafræðilega útreikninga hvers sjóðfélaga. Landssamtök lífeyrissjóða telja að þessi tillaga Péturs sé síður en svo til bóta og geti í mörgum tilvikum valdið verulegum misskilningi hjá sjóðfélögum.

Tilgangur breytingartillögunnar er að sögn Péturs H. Blöndals, að gera sjóðfélögum lífeyrissjóðanna betur meðvitaða um réttindi sín hjá sjóðunum og gera þeim ljóst hvað þeir eru að fá fyrir iðgjaldið. Það er hins vegar skoðun Landssamtaka lífeyrissjóða að þessi breytingartillaga sé síður en svo til bóta og geti í mörgum tilvikum valdið verulegum misskilningi hjá sjóðfélögum. Tryggingafræðilegar athuganir á fjárhagsstöðu lífeyrissjóða byggja m.a. á mati á dánar- og lífslíkum sjóðfélaga, auk ýmissa annarra þátta, svo sem mat á líkum þess að sjóðfélagar verði í hjónabandi eða annarri sambúð á hverju aldursári í framtíðinni, auk þess sem byggt er á mati á örorku- og endurhæfingarlíkum og líkum á því að sjóðfélagi eigi barn á hverju aldursári í framtíðinni. Þannig er engan veginn hægt að leggja að jöfnu tryggingafræðilega útreikninga sem byggja á meðaltölum ofangreindra þátta og persónulegum högum og stöðu einstakra sjóðfélaga, - nema þá með svo miklum fyrirvörum að hinn almenni sjóðfélagi væri litlu sem engu nær um lífeyrisréttindi sín. Þá kemur fram í svari Landssamtaka lífeyrissjóða að í dag senda flestir, ef ekki allir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði, tvisvar á ári upplýsingar til sjóðfélaga um iðgjaldagreiðslur og áunnin ellilífeyrisréttindi á mánuði í krónutölu, svo og upplýsingar hversu hár ellilífeyririnn yrði á mánuði, ef sjóðfélaginn héldi áfram að greiða sambærilegt iðgjald til sjóðsins allt til 67 ára aldurs. Landssamtök lífeyrissjóða telja að þær upplýsingar sem lífeyrissjóðirnir senda sjóðfélögum sínum í dag gefi raunsannari mynd af stöðu mála gagnvart einstökum sjóðfélögum og séu betur til þess fallnar að gera sjóðfélögum betur meðvitaða um lífeyrisréttindi sín, heldur en að koma á framfæri ýmsum tölum sem byggja á flóknum tryggingafræðilegum útreikningum, sem byggðar eru á meðaltölum og líkum en ekki á einstaklingsbundum réttindum. Landssamtök lífeyrissjóða leggjast því eindregið gegn samþykkt þessarar tillögu þingmannsins.