Helmingi minna fjárútreymi til útlanda í maímánuði.

Hreint fjárútstreymi til útlanda vegna viðskipta með erlend verðbréf nam í maí s.l. alls 1.365 m.kr. sem er umtalsverð lækkun miðað við maímánuð í fyrra, þegar nettókaupin námu alls 2.844 m.kr.

Hvort þessar tölur gefa vísbendingu um að viðskipti við útlönd með erlend verðbréf á þessu ári verði ekki eins mikil og menn hafa almennt búist við, skal ósagt látið. Vissulega verður þó forvitnilegt að skoða tölur yfir júnímánuð s.l., þegar þær birtast frá Seðlabankanum, ekki síst í samanburði við júnímánuð í fyrra, þegar hreint fjárútstreymi vegna viðskipa með erlend verðbréf nam hvorki meira né minna en 6.351 m.kr. Nettókaup fyrstu fimm mánuði þessa árs námu um 22,7 ma.kr., en á sama tíma í fyrra voru þau einungis 9,9 ma.kr. Ljóst er á þessum tölum að viðskipti við útlönd með erlend verðbréf, einkum hlutabréf, hafa í heildina aukist mikið á þessu ári borið saman við fyrstu fimm mánuði síðasta árs.


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands.