Á fundi í Madrid, sem haldinn var um miðjan apríl s.l., voru stofnuð Heimssamtök lífeyrissjóðasambanda, World Pension Association (WPA). Landssamtök lífeyrissjóða sem eru innan samtaka evrópska lífeyrissjóðasambanda, EFRP, verða sjálfkrafa aðili að hinum nýju samtökum.
Stofnaðilar eru svæðisbundin samtök lífeyrissjóðasambanda og einstakra landssamtaka lífeyrissjóða. Aðsetur WPA verður í Madrid og er stjórnin skipuð fulltrúum EFRP og FIAP (Alþjóðasamtök stjórnenda lífeyrissjóða, aðallega í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu), svo og fulltrúum frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Thailandi. Í nýjasta fréttabréfi EFRP kemur fram að samtökunum er ætlað m.a. að vera umræðugrundvöllur um - Frá gegnumstreymiskerfum til sjóðsmyndandi lífeyriskerfa. - Hömlur á fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. - Varðveisla lífeyrisréttar farandverkafólks. Eftirfarandi lönd gerast sjálfkrafa stofnaðilar að WPA: Aðilar að EFRP: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Guernsey, ÍSLAND, Írland, Luxemborg, Holland, Noregur, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland. Aðilar að FIAP: Argentína, Bolivía, Brasílía, Búlgaría, Kolombía, Costa Rica, Chile, Eqvador, El Salvador, Guatemala, Honduras, Mexíkó, Perú, Pólland, Domíníkansa lýðveldið, Kazakstan, Rússland, Spánn, Úrugvæ, og Úkranía.