Í morgun mælti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, með breytingum á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Helsta breytingin er sú að heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í hlutabréfum, innlendum og erlendum hlutabréfum eru auknar í samtals í 50% af hreinni eign. sjóðanna. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða telur að hækka eigi þetta mark upp í 60%.
Í frumvarpinu eru lagðar til þrjá efnisbreytingar á reglum um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í skráðum skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga, skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti opinbers eftirlitsaðila, hlutabréfum fyrirtækja og öðrum verðbréfum verði hækkuð úr 35% í 50%. Í öðru lagi að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í erlendum gjaldmiðlum verði aukin úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50%. Loks er lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum nái jafnt til verðbréfa sem gefin eru út af innlendum og erlendum aðilum en ekki einungis innlendum eins og nú er. Með breytingunum er komið nokkuð til móts við þau sjónarmið sem komið hafa fram, m.a. hjá Landssamtökum lífeyrissjóða, um að skynsamlegt sé að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga þar sem núverandi reglur séu til þess fallnar að draga úr möguleikum lífeyrissjóða á að nýta sér þá fjárfestingarkosti sem þeir telja vænlegasta. Rýmkun á heimildum lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutabréfum og verðbréfum í erlendum gjaldmiðlum er í samræmi við það álit sem fram kemur í ársskýrslu OECD fyrir árið 1999 að rétt sé að auka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutabréfum og verðbréfum í erlendum gjaldmiðlum þar sem það gefi þeim færi á að dreifa eignum sínum betur og möguleika á aukinni arðsemi fjárfestinga. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða álítur að hækka eigi þetta mark upp í 60% enda sýni reynslan erlendis að þeim mun rýmri fjárfestingaheimildir sem lífeyrissjóðirnr hafa, þeim mun meiri árangri ná þeir í raunávöxtun.