Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands bauðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 30 0701. Útboðin fóru fram þann 15. febrúar og voru hugsuð sem liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, sbr. áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011. Seðlabankinn bauðst til að kaupa allt að 100 milljónir evra í útboðunum en áskildi sér rétt til að hækka eða lækka útboðsfjárhæðina. Í heildina bárust 77 tilboð að fjárhæð 173,6 milljónir evra. Tekið var tilboðum að fjárhæð 141,3 milljónir evra og voru þau öll á sama verði (e. single price), sem var ákvarðað 240 kr. fyrir hverja evru. Tilboð sem bárust á genginu 240 krónur fyrir hverja evru voru lækkuð hlutfallslega um 50% vegna umframeftirspurnar.