Gengissig krónunnar byggist á ýmsum samverkandi þáttum. Ummælum Birgis Ísleifs vísað á bug.

Vísað er á bug ummælum Birgis Ísleifs Gunnarssonar, seðlabankastjóra, að lífeyrissjóðirnir eigi stóran þátt í gengissigi krónunnar. Ýmsir aðrir samverkandi þættir skipta meira máli.

Í ummælum Birgis Ísleifs s.l. fimmtudag var því haldið fram að lífeyrissjóðirnir hafi farið of geyst í fjárfestingar í útlöndum frá því að heimildir þeirra til þess voru rýmkaðar og það hafi veikt gengi krónunnar. Þá bætti bankastjórinn því við að þessi fjárfestingastefna lífeyrissjóðanna komi ekki sjóðfélögum þeirra til góða. Það valdi honum vonbrigðum og að sjóðirnir þurfi að endurskoða fjárfestingastefnuna. Að mati Víglundar Þorsteinssonar, stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, er peningamálastefna Seðlabankans ástæðan fyrir því að gengi krónunnar hefur lækkað mikið frá áramótum og að fjárfestingar lífeyrissjóðanna í útlöndum hafi komið í veg fyrir ófremdarástand og verðbólgu. Birgir Ísleifur sé að reyna að kenna lífeyrissjóðunum og gera þá að blóraböggli fyrir eigin mistök. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hafnar því sömuleiðis að miklar fjárfestingar lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfum eigi stóran þátt í gengissigi krónunnar. Ýmiss tíðindi í efnahagsmálum í maí s.l. skýri gengissig krónunnar. Þá varð ljóst að samdráttur yrði í veiðiheimildum. Meiri verðbólga væri hér en í helstu viðskiptalöndum, það væri verulegur viðskiptahalli og menn sjái t.a.m. fram á erfiða kjarasamninga við opinbera starfsmenn og síðan sjómenn og við þessar aðstæður hafi í sjálfu sér verið mjög eðlilegt að krónan veiktist. Á síðast ári hafi lífeyrissjóðirnir fjárfest erlendis en þrátt fyrir það hafi krónan verið að styrkjast allt árið. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu líka töluvert mikið ásamt öðrum aðilum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs og áfram hélt krónan að styrkjast þrátt fyrir það. Síðan hafi dregið úr hraða fjárfestinganna en krónan hafi veikst, þannig að málið væri flóknara en svo að hægt væri að setja það á lífeyrissjóðina. Landssamtök lífeyrissjóða taka heilshuga undir þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá Víglundi Þorsteinssyni og Þorgeiri Eyjólfssyni og benda jafnframt á að fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis eru í sjálfu sér langtímamarkmið hjá sjóðunum. Auknar heimildir lífeyrissjóðannna nú í vor til verðbréfakaupa erlendis skipta því ekki máli í þessu sambandi, eins og þó megi skilja á ummælum seðlabankastjórans í fjölmiðlum.