Fundur í Pension Forum í Brussel.

Nýlega var haldinn fimmti fundur í málstofu framkvæmdastjórnar ESB um lífeyrismál Pension Forum þar sem Ísland hefur áheyrnaraðild. Megináherslan að þessu sinni var lögð á flutning lífeyrisréttinda milli aðildarríkja ESB og frumvarp að tilskipun ESB um starfstengda lífeyrissjóði (Occupational pension funds).

Í umræðum um tilskipun um starfstengda lífeyrissjóði var lögð áhersla á mikilvægi þess að setja reglur um aðra stoð lífeyriskerfisins en hún er eini þáttur fjármálakerfisins sem fellur ekki undir samevrópskar reglur með sama hætti og bankar, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög. Áætlað er að um fjórðungur íbúa ESB eigi lífeyrissparnað í starfstengdum lífeyrissjóðum, samtals um 200 milljarða €. Samevrópskar reglur á þessu sviði eru taldar ein af forsendum aukins hreyfanleika vinnuafls innan Evrópu. Við skipan þessara mála skipti hins vegar máli að skerða ekki forræði aðildarríkjanna á sviði félags- og vinnuréttar, sem og skattamála. Þau drög að tilskipun sem nú liggja fyrir snúa fyrst og fremst að eftirliti með starfsemi lífeyrissjóða og hefðu það markmið að styðja sameiginlegan fjármálamarkað. Í tilskipunninni er lögð áhersla á prudent manner approach en ekki er hefð fyrir þeirri viðmiðun í sumum aðildarríkja ESB. Enn er ekki ljóst hvort eða hvenær tilskipunin verður samþykkt en Spánn, sem fer nú með formennsku í ráðherraráði ESB, leggur áherslu á að ná sem bestri samstöðu aðildarríkjanna um frumvarpið áður en það verður samþykkt. Fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB taldi það nokkuð mikla bjartsýni að tilskipunin tæki gildi fyrir árslok þó vert væri að stefna að því. Á vettvangi málstofunnar hefur verið rætt um með hvaða hætti sé unnt að greiða fyrir flutningi áunnina lífeyrisréttinda í starfstengdum lífeyrissjóðum á milli landa en um það gilda nú engar reglur í Evrópurétti. Flutningur lífeyrisréttinda er veruleg hindrun fyrir hreyfanleika vinnuafls innan innri markaðar ESB. Skiptar skoðanir voru um hvaða leiðir væru færar. M.a. hefur verið bent á að málið geti verið æði torleyst þar sem einstakir lífeyrissjóðir innan ESB eru svo ólíkir. Einnig hefur verið nokkur umræða um það hver ætti að bera kostnaðinn við flutning réttinda, þ.e. gamli eða nýi lífeyrissjóðurinn, nýi eða fyrri vinnuveitandinn eða launamaðurinn sjálfur. Þá kunna að vera viss vandkvæði á að flytja réttindi sem eru ekki að fullu sjóðmynduð. Niðurstaða sérfræðihóps innan málstofunnar er að mikilvægt sé að setja reglur sem gera flutning réttinda mögulegan. Vandasamt geti hins vegar verið að meta réttindin vegna þess að þau eru ekki einstaklingsbundin (þ.e. byggja á samtryggingu). Þá skipti líka máli við hvaða vexti eigi að miða þegar réttindi eru reiknuð út og flutt í annan sjóð. Þá var það skoðun hópsins að flutningur ætti ekki að vera skylda, heldur að einstaklingar ættu að geta valið um að geyma áunnin réttindi hjá sjóðunum og vera áfram aðilar að þeim. Einnig var talið brýnt að afnema skattahindranir við flutning lífeyrisréttinda. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að sjóðfélagar tækju ákvörðun um flutning á sem traustustum forsendum, og að þeim væru tryggðar fullnægjandi upplýsingar til þess.


Vefrit fjármáráðuneytsins.