Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða boðar til fulltrúaráðsfundar föstudaginn 10. nóvember n.k. kl. 15.00 að Hótel Sögu, A-sal, Reykjavík. Dagskrá fulltrúaráðsfundarins verður að þessu sinni óvenju athyglisverð.
Sérhver lífeyrissjóður innan LL tilnefna 2 fulltrúa í fulltrúaráð samtakanna. Auk þeirra eiga sæti í fulltrúaráðinu stjórn og varastjórn samtakanna. Verkefni fulltrúaráðsins skal vera að ræða sameiginleg markmið lífeyrissjóðanna og stuðla að samheldni þeirra á milli auk þess að fjalla um þau mál sem hæst ber í starfsemi lífeyrissjóðanna á hverjum tíma. Dagskrá þessa fulltrúaráðsfundar verður að þessu sinni óvenju athyglisverð. Við munum fyrst fjalla um atvinnuendurhæfingu örorkulífeyrisþega og samvinnu heilbrigðis- og menntakerfis. Lífeyrissjóðirnir greiddu á síðasta ári rúmleg 2.600 m. kr. í örorkulífeyri, þannig að hér er um að ræða mjög háar fjárhæðir, sem renna í þennan bótaflokk og sem sífellt fara vaxandi. Það skiptir því lífeyrissjóðina og sjóðfélagana almennt miklu að vel takist til um atvinnuendurhæfingu örorkulífeyrisþega. Í samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur Sameinaði lífeyrissjóðurinn nú sett af stað tilraunaverkefni um atvinnuendurhæfingu örorkulífeyrisþega og mun Kristín Siggeirsdóttir, iðjuþjálfi, sem er verkefnisstjóri hjá Janus Endurhæfingu ehf. kynna verkefnið. Hitt dagskrármálið á fulltrúaráðsfundinum er ekki síður athyglisvert en það er staða lífeyrissjóðanna á íslenskum fjármálamarkaði og framþróun hans. Verðbréfamarkaðurinn á Íslandi er í örri þróun og hefur mikil og vaxandi áhrif á hagvöxt í landinu og stöðu atvinnulífs og lífskjara yfirleitt. Verðbréfamarkaðurinn hefur mótast og vaxið á einum áratug, samhliða stóreflingu lífeyrissjóðakerfisins. Á sama tíma hafa einnig skapast algerlega nýjar samkeppnisaðstæður við það að markaðurinn hefur opnast gagnvart útlöndum. Í kjölfar þessa hafa að vonum verið gerðar margháttaðar breytingar á löggjöf og reglugerðum um verðbréf og verðbréfaviðskipti. Í mörgum atvikum hefur þróunin tekið mið af framvindunni í Evrópu, en einnig hefur verið miðað við íslenska reynslu og aðstæður hér. Staða lífeyrissjóðanna á fjármagnsmarkaðnum og framþróun hans er því spennandi dagskrárefni. Framsögumenn verða ekki af verri endanum en þeir eru: Gylfi Magnússon, dósent við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ, Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP Verðbréf h.f. og Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður Verðbréfaþings Íslands. h.f.