Fjármálaráðuneytið hefur sett lífeyrissjóðunum viðmið við innheimtu vangoldinna lífeyrisiðgjalda. Þau eru sett til leiðbeiningar og til að stuðla að samræmdri framkvæmd og festu í innheimtu lífeyrisiðgjalda Lífeyrissjóðirnir bera eftir sem áður sjálfir ábyrgð á framkvæmd og fyrirkomulagi innheimtu lífeyrisiðgjaldanna.
Samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er lágmarksiðgjald til öflunar lífeyrisréttinda 10% af iðgjaldsstofni. Í lögunum er jafnframt mælt fyrir um það að ríkisskattstjóri skuli hafa eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Ríkisskattstjóri framkvæmir eftirlitið með þeim hætti að hann aflar gagna frá lífeyrissjóðunum um greidd iðgjöld til þeirra,frálaunagreiðendum og sjálfstætt starfandi aðilum um greidd laun ásamt greiddum lífeyrisiðgjöldum auk upplýsinga frá launþegum um greidd iðgjöld til lífeyrissjóða. Við samkeyrslu framangreindra gagna kemur í ljós hvaða aðilar eiga vangoldin lífeyrisiðgjöld. Upplýsingar um vangoldin iðgjöld eru svo send viðkomandi lífeyrissjóðum til innheimtu. Fram hafa komið fyrirspurnir frá lífeyrissjóðum og samtökum þeirra um hversu langt sé eðlilegt að ganga í innheimtu vangoldinna lífeyrisiðgjalda. Í samræmi við þessar fyrirspurnir hefur nú fjármálaráðuneuytið sett fram leiðbeinandi reglur um innheimtu vanskilaiðgjalda. Ráðuneytið vill leggja áherslu á mikilvægi þess að festa og samræmi sé í innheimtu vangoldinna lífeyrisiðgjalda þannig að lífeyrislögin nái því markmiði sínu að launamenn tryggi sér viðunandi lífeyri. Í ljósi þess mun ráðuneytið meta reynsluna af eftirfylgni með innheimtu lífeyrisiðgjalda og taka ákvörðun í framhaldi af því hvort ástæða sé til einhverra breytinga í þeim efnum.