Fjármálaeftirlitið leggst gegn kaupum á meirihluta í Íslenskum verðbréfum.

Fjármálaeftirlitið hefur veitt umsögn sína um tilboð Fjárfestingafélags Norðlendinga ehf. í meirihluta hlutabréfa í Íslenskum verðbréfum hf. Fjárfestingafélag Norðlendinga er að öllu leyti í eigu Lífeyrissjóðs Norðurlands. Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins, eftir að hafa haft málið til skoðunar í rúma tvo mánuði, er sú að það telur kaupin ekki samrýmast 36. gr. laga nr. 129/1997 og leggst gegn því að kaupin fari fram.

Framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands, Kári Arnór Kárason, segir að þegar farið var af stað með málið, hafi menn álitið að það stæðist ákvæði laga og hann væri ósáttur við þessa niðurstöðu. "Málið snýst um túlkun á tilteknum lagatexta í lögum um starfsemi lífeyrissjóða. Fjármálaeftirlitið tók sér langan tíma til að skoða málið og skilaði frá sér formlegri niðurstöðu 19. febrúar. Þeir komast að því að kaupin samrýmist ekki lögunum. Að okkar mati er umsögn eftirlitsins ekki vel unnin og illa rökstudd og við erum henni algerlega ósammála. Ég býst þó ekki við áfrýjun af okkar hálfu. Miðað við þann tíma sem mál virðast taka hjá eftirlitinu myndum við sennilega ekki fá svar fyrr en eftir einhverja mánuði. Það er algerlega óviðundandi að svona máli skuli haldið opnu í jafnlangan tíma. Þetta er því niðurstaða í málinu, a.m.k. hvað þetta tilboð varðar." segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands.


Heimild: Heimasíða Lífeyrissjóðs Norðurlands.