Í tímaritinu IPE (Investment & Pensions Europe) birtist reglulega spá um þróun hlutabréfa, skuldabréfa og gengis. Spáin byggist á áliti yfir 100 virtra fjármálafyrirtækja í Evrópu. Spurt er um þróunina næstu 6 til 12 mánuðina.
Almennt telja fjármálafyrirtækin að verð hlutabréfa í Evrópu og Asíu eigi eftir að hækka á næstu mánuðum, en hins vegar verði ekki um hækkun að ræða á verði hlutabréfa í Bandaríkjunum og að verð hlutabréfa þar eigi frekar eftir að standa í stað heldur en að hækka eða jafnvel lækka. Hvað varðar skuldabréfamarkaðinn spá fjármálafyrirtækin að þróunin verði frekar neikvæð í Bretlandi og Japan, en ástandið verði hins vegar mun betra í Bandaríkjunum og á meginlandi í Evrópu. Þá er í þessari mánaðarlegu könnun í IPE spurt um innbyrðis gengisþróun helstu gjaldmiðlanna næstu sex til 12 mánuðina. Þar kemur fram að fjármálafyrirtækin búast yfirleitt við stöðugu ástandi nema að talið er almennt að evran eigi eftir að veikjast enn frekar í samanburði við bandaríkjadollar.