Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni hefur nýlega skorað á lífeyrissjóði, sem nota vísitölu neysluverðs til verðbóta á lífeyri að breyta í viðmiðun við launavísitölu. En er allt sem sýnist í þessu máli?
Aðalfundurinn telur notkun neysluverðsvísitölunnar til verðtryggingar eftirlauna ófullnægjandi, sem sjá megi af því að síðustu þrjú árin hafi sú vísitala aðeins hækkað um 8,7% en launavísitalan á sama tíma um 23,7%. Lífeyrissjóðir beri samkvæmt lögum að hækka eftirlaunin eða lækka iðgjöldin þegar hagnaður nær 10% eða 5% samfellt í 5 ár, en fullyrt er að vanhöld séu á því að við þetta sé staðið. Að mati Landssamtaka lífeyrissjóða er hér um nokkurn misskilning að ræða, þegar fullyrt er að hagstæðara sé að tengja lífeyrir við hækkun launavísitölunnar í stað vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Það sem skiptir auðvitað máli er, hvort viðkomandi lífeyrissjóður eigi fyrir lífeyrisskuldbindingum sínum eða ekki í bráð og lengd. Í lífeyrissjóðalögunum er beinlínis gert ráð fyrir því að lífeyrisréttindin verði bætt, ef munur milli eignarliða og skuldbindinga er meiri en 10% yfir eitt ár eða meiri en 5% samfellt í 5 ár. Um bein lagafyrirmæli er að ræða sem engan veginn er hægt að víkja sér undan. Hér er átt við lífeyrissjóði sem ekki njóta bakábyrgðar launagreiðenda, t.d. ríkis eða sveitarfélaga. Nú allra síðustu árin hefur raunávöxtun lífeyrissjóðanna verið umtalsvert hærri en sá tryggingafræðilegi grunnur sem almennt er byggt á, þ.e. 3,5% raunávöxtun umfram vísitölu neysluverðs. Vegna þessara hagstæðu ytri skilyrða hafa lífeyrissjóðirnir á almennum vinnumarkaði hver á fætur öðrum verið að bæta lífeyrisréttindin, jafnvel árlega. Það sem skiptir máli er raunávöxtun lífeyrissjóðanna umfram þau tryggingafræðilegu viðmið, sem lög og reglugerðir gera ráð fyrir, en ekki þau viðmið sem notuð eru til að hækka lífeyririnn frá einum mánuði til annars. Sjóðfélagar munu því einir njóta þess ríkulega að sjóðirnir búa um þessar mundir við óvenjulega góða raunávöxtun umfram lífeyrisskuldbindingar.