Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að sala erlendra verðbréfa umfram kaup nam 723 m. kr. í ágúst en til samanburðar voru nettókaup um 1,7 ma. kr. í sama mánuði árið 2000.
Neikvæð verðbréfaviðskipti við útlönd voru síðast í júnímánuði, og þar áður í desembermánuði 2000. Athygli vekur að viðskiptin hafa í þrígang verið neikvæð á tímabilinu ágúst 2000-ágúst 2001 en til samanburðar má geta þess að á tímabilinu ágúst 1996-ágúst 2000 voru viðskiptin einungis neikvæð í nóvember 1996. Síðustu misseri hafa verið fjárfestum erfið og því eðlilegt að nokkuð dragi úr nettókaupum. Neikvæð nettókaup vekja aftur á móti upp ýmsar spurningar s.s. þá hvort fjárfestar hafi breytt um áherslur í fjárfestingum sínum. Í stað þess að kaupa erlend verðbréf hafi fjárfestar í vaxandi mæli ávaxtað ráðstöfunarfé sitt á innlendum peningamarkaði og til útlána.
Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands