Eignir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, námu tæpum 101 milljörðum króna í árslok 2001. Þar með er LSR orðinn stærsti lífeyrissjóður landsins, ef miðað er við eignir. Hrein raunávöxtun var jákvæð í fyrra um 0,01%
Samtals nam hækkun á hreinni eign sjóðsins milli áranna 2000 og 2001 um 24,7 milljarða króna, sem byggist ekki síst á því að ríkið greiddi í fyrra inn á lífeyrisskuldbindingar sínar vegna B-deildar sjóðsins um 13,8 milljarða króna. Hrein raunávöxtun sjóðsins í fyrra var 0,01%. Ávöxtun A-deildar sjóðsins var neikvæð um 2,89% en B-deildin skilaði 0,67% jákvæðri ávöxtun. Ávöxtun séreignardeildar sjóðsins var neikvæð um 3,16%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu árin nam 4,20%. Miðað er við 4 ár í A-deild; 5 ár í B-deild og 3 ár í séreignardeild. Heildarskuldbindingar umfram eignir í A-deild sjóðsins námu 878 milljónum króna eða -0,9% af heildarskuldbindingum. Krafa á launagreiðendur, aðallega á ríkið, sem haldið er utan efnahagsreiknings námu tæpum 123 milljöðrum króna vegna B-deildar sjóðsins. Ársfundur LSR verður haldinn 28. maí n.k. á Grand Hótel Reykjavík og hefst fundurinn kl. 15.00. Fundurinn er opinn öllum sjóðfélögum og launagreiðendum.