Eignir lífeyrissjóða á Íslandi eru um 2 milljónir króna á íbúa.

Í nýlegri skýrslu frá William M. Mercer er að finna ýmsar tölulegar staðreyndir um lífeyrissjóðina í Evrópu. Ísland er ekki með í skýrslunni en auðvelt er að bera saman tölulegar upplýsingar um íslensku lífeyrissjóðina í samanburði við aðra sjóði í Evrópu.

Skýrsla William M. Mercer nær til lífeyrissjóða í 15 Evrópulöndum, sem flest eru innan Evrópusambandsins. Eignir sjóðanna sem hlutfall af landsframleiðslu er um 40% á árinu 2000 í samanburði við um 32% á árinu 1996 og gefur þessi aukning greinilega til kynna að eignir lífeyrissjóðanna hafa farið mjög vaxandi á umliðnum árum sem hlutfall af landsframleiðslu. Hér á Íslandi er hlutfall eigna lífeyrissjóðanna um 84% af landsframleiðslu í árslok 2000. Í samanburði við önnur Evrópulönd er Holland með hæsta hlutfall, þar sem eignir lífeyrissjóðanna í árslok 2000 eru 162% af landsframleiðslu. Önnur lönd með hátt hlutfall eru: Svíþjóð (112%), Sviss (111%), Danmörk (100%) og Bretland (91%). Skýrslan staðfestir þá staðreynd að löndin í Suður-Evrópu standa langtum lakar að vígi hvað varðar sjóðsöfnun lífeyriskerfanna en önnur í Evrópu. Þannig eru eignir lífeyrissjóða í Frakklandi og á Spáni aðeins um 5% af landsframleiðslu á árinu 2000. Hlutfallið er 22% á Ítalíu og 10% í Portúgal. Ef íbúafjölda er deilt upp í heildareignir lífeyrissjóða í hverju einstöku landi, þá eru eignir um 2 milljónir króna á hvern íbúa hér á landi í árslok 2000. Sambærilegar eignir eru á hvern íbúa í Bretlandi en hæstar eru eignirnar á íbúa í Sviss um 3,8 m.kr og í Hollandi um 3,7 m.kr. Á Spáni eru hins vegar eignir lífeyrissjóðanna um 68 þúsund kr. á hvern íbúa, í Portúgal 101 þús. kr. og Frakklandi um 118 þúsund kr. á hvern íbúa. Vert er að geta þess að íslenska krónan hefur veikst að jafnaði um 20% frá áramótum m.v. aðra gjaldmiðla og gæti því samanburður við önnur Evrópulönd reynst okkur óhagstæðari, ef miðað væri við gengi íslensku krónunnar í dag.


Heimild: IPE júní 2001