Eignir lífeyrissjóða 551 miljarðar króna í lok mars 2000.

Samkvæmt áætlun Seðlabanka Íslands, sem byggir á úrtaki 27 stærstu lífeyrissjóðanna, nam hrein eign til greiðslu lífeyris 551 miljörðum króna í lok mars á þessu ári. Eignirnar hafa aukist um 126 miljarða króna miðað við sama tíma í fyrra. Erlendu eignirnar eru taldar nema um 113 miljörðum króna.

Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands áætlar þessar tölur, sem telja verður mjög áreiðanlegar, þar sem þær byggja á úrtaki 27 stærstu lífeyrissjóðanna með um 91% af heildareignum sjóðanna. Í lok mars 2000 námu erlend verðbréf í eigu lífeyrissjóðanna um 113 miljörðum króna borið saman við 97 miljaðar króna í lok árs 1999 og 50 miljarða króna í árslok 1998. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af heildareignum eru nú rúmlega 20%. Sambærilegt hlutfall var um 18,7% um síðustu áramót og 12,2% í árslok 1998. Þá liggja ennfremur fyrir tölur frá Seðlabankanum um viðskipti við útlönd með erlend verðbréf. Velta innlendra aðila með erlend verðbréf var mikil í mars s.l. Kaup námu um 11,9 ma.kr. og sala/innlausn um 5,7 ma.kr., nettóviðskipti voru 6,2 ma.kr. Nettóviðskipti fyrstu þrjá mánuði ársins hafa numið 15,1 miljörðum króna miðað við 4,7 ma. kr. fyrir janúar til og með mars í fyrra. Sem fyrr eru kaupin mest í hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum, einkum hlutabréfum.


Heimild: Seðlabanki Íslands, tölfræðisvið