Eignir 10 stærstu lífeyrissjóðanna 343 miljarðar króna í lok síðasta árs.

Eignir sömu sjóða námu 268 miljörðum króna í árslok 1998 og er því um að ræða 28% aukningu á eignum milli ára. Nú sem áður er Lífeyrissjóður verzlunarmanna stærstur eða með eignir sem námu 75.460 m.kr. í lok síðasta árs.

Næst stærsti sjóðurinn er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins en heildareignir úr báðum deildum sjóðsins, þ.e. A-deild og B-deild, námu 60.846 m. kr. í árslok síðasta árs. Næstu sjóðir eru í þessari stærðarröð: Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður sjómanna, Lífeyrissjóður Norðurlands, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóðurinn Lífiðn og Samvinnulífeyrissjóðurinn. Raunávöxtun 10 stærstu lífeyrissjóðanna var á bilinu 7,5% til 17,8% á síðasta ári. Best var raunávöxtunin hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum eða 17,8% og næstur kom Lífeyrissjóður Norðurlands með 16,2%. Þegar 5 ára tímabil er skoðað eru þessi tveir lífeyrissjóðir einnig efstir með raunávöxtun 10,7% og 9,7%. Meðalávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins A-deild er þó 10,8% en þá er um að ræða styttra viðmiðunartímabil. Ekki kemur á óvart að raunávöxtunin hefur fylgt þeirri aukningu, sem verið hefur á kaupum sjóðanna á erlendum verðbréfum. Þannig námu erlend verðbréf um 37% af eignum Sameinaða lífeyrissjóðsins í lok síðasta árs og 32% hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Lífeyrissjóður verkfræðinga er ekki meðal 10 stærstu lífeyrissjóðanna en raunávöxtun þess sjóðs nam 21,6% á síðasta ári og ef skoðað er fimm ára meðaltal, þá nam raunávöxtunin 10,3%. Hlutfall erlendra verðbréfa í eignasafni Lífeyrissjóðs verkfræðinga er líka með því hæsta sem þekkist eða 44%.