Eign lífeyrissjóðanna erlendis 96 miljarðar um síðustu áramót.

Í ræðu Birgis Ísleifs Gunnarssonar á ársfundi Seðlabanka Íslands kom fram að lífeyrissjóðirnir færu með æ stærri hlut eigna sinna yfir á erlendan markað.

Orðrétt sagði Birgir Ísleifur Gunnarsson í ræðu sinni: "Eignir lífeyrissjóða jukust hratt á síðasta ári. Samkvæmt bráðabirgðatölum nam hrein eign þeirra um síðustu áramót rúmum 515 milljörðum króna og hafði vaxið um 108 milljarða króna á árinu eða 26,5%. Hrein eign lífeyrissjóða í árslok 1999 nam sem svaraði 81% af vergri landsframleiðslu ársins. Samsetning eigna lífeyrissjóðanna hélt áfram að breytast, og jukust erlendar eignir þeirra mikið. Eign lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfum nam í árslok 96 milljörðum króna, tæplega 19% af hreinni eign þeirra. Ljóst er að lífeyrissjóðir færa æ stærri hlut eigna sinna yfir á erlenda markaði, en eru þó vel undir því hámarki sem lög setja þeim. Innlend markaðsskuldabréf og hlutdeildarskírteini í eigu lífeyrissjóða jukust nánast jafn mikið á síðasta ári og árið áður. Eign þeirra á skuldabréfum ríkissjóðs dróst enn saman, en húsbréfaeign jókst um rúma 8 milljarða króna, og er þetta öfugt við það sem var á fyrra ári. Í lok ársins nam eign lífeyrissjóða í innlendum og erlendum hlutabréfum 85 milljörðum króna og hafði vaxið um 36 milljarða á árinu. Tæpur helmingur hlutabréfanna er erlendur. Í hlutabréfasjóðum áttu lífeyrissjóðirnir 47 milljarða króna, 29 milljörðum króna meira en árið áður. Það er nánast allt í erlendum sjóðum. Ég læt þessar tölur duga um starfsemi lífeyrissjóðanna, en þær sýna mikið og vaxandi afl þeirra sem fjármálastofnana."