Hæstiréttur hefur sýknað karl af kröfu fyrrverandi eiginkonu hans, sem vildi fá andvirði helmings lífeyrissjóðsinneignar hans hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn í sinn hlut þegar hjónabandinu lauk í júlí 1998.
Hæstiréttur vísar m.a. til þess, að hjónin höfðu ekki gert með sér samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna, svo sem þeim var heimilt samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Hjónin höfðu verið tæp 34 ár í hjúskap er þau slitu samvistir. Konan vann ekki utan heimilis, en annaðist það og uppeldi tveggja dætra þeirra hjóna. Maðurinn vann verka- og vélamannavinnu og greiddi í lífeyrissjóð. Samkvæmt skilnaðarsamningi var hjúskapareignum þeirra skipt til helminga milli þeirra, en ágreiningur reis um lífeyrisréttindin. Konan krafðist andvirðis helmings lífeyrissjóðsinneignarinnar í sinn hlut með vísan til hjúskaparlaga, en hann neitaði með vísan til sömu laga. Ákvæðið sem maðurinn byggði á kveður á um að maki geti krafist þess, að tiltekin verðmæti komi ekki undir skiptin, þar með talin réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum. Konan byggði hins vegar á næstu málsgrein, þar sem segir, að þyki ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að réttindum sé haldið utan skipta, sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum. Hæstiréttur segir að líta verði heildstætt á allar aðstæður aðila við úrlausn málsins. Í dóminum er vísað til þess, að bæði karlinn og konan búi nú í eigin íbúðum. Hann fær um 92 þúsund krónur á mánuði í lífeyri eftir skatta, en hún um 74 þúsund krónur á mánuði í örorkubætur. Hæstiréttur bendir á að í athugasemdum við umrædd ákvæði í hjúskaparlögunum sé tekið fram, að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta. "Verður að telja, að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til þess, að þau komi undir skiptin. Þótt tekið sé undir það með héraðsdómi, að hlutur áfrýjanda í myndun lífeyrisréttinda stefnda hafi verið umtalsverður, þykir þó ekki, eins og þar greinir, hafa verið sýnt fram á, að það sé ósanngjarnt að halda þeim utan skipta," segir Hæstiréttur og sýknar karlinn af kröfu konunnar.