DB versus DC !

Erlendis er algengast að flokka lífeyrissjóðina í tvo megin flokka. Annars vegar í fastréttindasjóði (defined benefits scheme, skammstafað DB) og hins vegar í fastiðgjaldasjóði (defined contributions scheme, skammstafað DC). Hvernig fellur þessi flokkun að íslenskum lífeyrissjóðum?

Í fastréttindasjóðum (DB) lofar lífeyrissjóðurinn sjóðfélögum sínum ákveðnum gefnum réttindum á grundvelli fyrirfram ákvarðaðs iðgjalds. Í fastiðgjaldasjóðum (DC) ráðast réttindi sjóðfélaga af þeirri ávöxtun sem fæst á iðgjöld. Munurinn á þessum tveim tegundum lífeyrissjóða liggur í því hver ber áhættuna af því að viðkomandi ávöxtun fáist. Í fastréttindasjóðum (DB) er það yfirleitt launagreiðandinn sem ber þessa áhættu (t.d. hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins) en í fastréttindasjóðum án ábyrgðar launagreiðenda bera sjóðfélagar áhættuna sameiginlega. Í fastiðgjaldasjóðum (DC) er það hins vegar hinn einstaki sjóðfélagi sem ber áhættuna. Samkvæmt þessari skiptingu fokkast því íslensku sameignarsjóðirnir sem fastréttindasjóðir (DB) en greiðsla í séreign hins vegar sem fastiðgjaldasjóður (DC). Í lífeyrissjóðalögunum er hægt að tryggja lágmarksréttindi hér á landi með samþættingu lífeyrisiðgjalds í sameign og í séreign. Algengast er þó að lágmarksréttindin séu alfarið tryggð með greiðslu í sameign. Íslenska lífeyriskerfið byggist því að mestu leyti á gefnum lífeyrisréttindum og telst þvi fastréttindakerfi (DB). Málið er þó ekki alveg svona einfalt, því að ef ávöxtun iðgjaldanna og þar með eigna lífeyrissjóðanna er betri en hinn tryggingafræðilegi grunnur (þ.e. yfir 3,5% hreina raunávöxtun), þá njóta sjóðfélaga þess í bættum réttindum í fastiðgjaldakerfi og í fastréttindakerfi án ábyrgðar launagreiðenda. Í fastréttindakerfi með ábyrgð launagreiðenda, er það hins vegar atvinnurekandinn, t.d. ríkið sem nýtur þess að lífeyrissjóðurinn býr við svo góða ávöxtun og gæti því t.d. ríkið í slíku tilviki lækkað mótframlag sitt til lífeyrissjóðsins a.m.k. tímabundið. Að lokum ber svo geta þess að endalausar deilur og umræður eru úti í hinum stóra heimi, hvort lífeyrissjóðakerfið sé betra DB eða DC. Verður síðar hér á fréttasíðunni væntanlega hægt að reifa þær umræður frekar.


Sjá einnig rit Más Guðmundssonar um "Íslenska lífeyriskerfið" m.a. hér á heimasíðu LL.