Breytt rekstrarform Reiknistofu lífeyrissjóða.

Stjórn Reiknistofu lífeyrissjóða (RL) hefur nýlega ákveðið að breyta RL í hlutafélag. Stofnfundur hins nýja félags verður haldinn fljótlega með núverandi eignaraðilum RL, þar sem lagt verður til að stofna hlutafélagið Reiknistofa lífeyrissjóða ehf. Eignarhlutföll í hinu nýja félagi verða þau sömu og í núverandi samstarfi.

Reiknistofa lífeyrissjóða er nú í eigu 14 lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði, en einnig á ASÍ lítinn hlut í RL. RL hefur yfir að ráða öflugum vélbúnaði til að sinna þörfum lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Hugbúnaðurinn heldur utan um lífeyrisgreiðslukerfi, verðbréfakerfi og iðgjaldabókhald lífeyrissjóða, ásamt félagakerfi stéttarfélaga o.fl. Reiknistofa lífeyrissjóða hefur þróast frá stofnun fyrir 15 árum frá eins manns yfir í tíu manna fyrirtæki. Megin viðfangsefni RL hefur verið, eins og áður segir, þróun hugbúnaðar fyrir lífeyrissjóði og rekstur tölvukerfa. Helstu kostir þess að breyta rekstrarformi RL eru taldir þessir: Unnt er að styrkja RL með því að sækja á almennan markað og nýta þekkingu þess á sviði miðlægs reksturs tölvukerfa sem aukin þörf verður fyrir í framtíðinni. Unnt er að reka RL á grundvelli almennra lögmála samkeppnismarkaðar. Auknar líkur eru taldar á því að RL geti sótt nýja framúrskarandi starfsmenn samhliða mótaðri starfsmannastefnu. Auknar líkur eru á því að með breyttu rekstrarformi RL verði fleiri lífeyrissjóðir viðskiptavinir og jafnvel eigendur að RL. Auknar líkur eru taldar á því að fleiri aðilar, s.s. fjármálafyrirtæki, hafi áhuga á þjónustu RL. Framkvæmdastjóri RL er Jakob H. Ólafsson og formaður stjórnar er Örn Arnþórsson, skrifstofustjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar.