Samtals námu verðmæti höfuðstóls og framtíðariðgjalda 15,321 milljörðum hjá Lífeyrissjóði bænda í árslok 1999. Heildarskuldbindingar námu hins vegar 15,279 milljörðum. Sjóðurinn á því 0,3%, umfram heildarskuldbindingar. Í árslok 1998 nam halli vegna heildarskuldbindinga hins vegar 4,8% Hrein raunávöxtun nam 9,9% í fyrra.
Lífeyrissjóður bænda starfar nú samkvæmt nýjum heildarlögum, lögum nr. 12/1999, og á grundvelli þeirra og almennra laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, laga nr. 129/1997, voru sjóðnum í fyrsta sinn settar samþykktir á árinu 1999. Lög og samþykktir tóku gildi 1. júlí 1999. Hrein eign til greiðslu lífeyris nam í árslok 11,38 milljörðum króna og hækkaði um 14,9% frá fyrra ári. Raunávöxtun nemur 10,10% samanborið við 8,92% árið áður og hrein raunávöxtun, þ.e. þegar rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá, nemur 9,90% en 8,68% á árinu 1998. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára nemur nú 8,14%. Frá 1. janúar 1999 er í gildi samningur við Kaupþing hf. f.h. Lífeyrissjóðsins Einingar um sérkjör fyrir bændur sem kjósa að leggja séreignarsparnað sinn í þann sjóð. Um 100 sjóðfélagar Lífeyrissjóðs bænda hafa nýtt sér samninginn. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins á árinu námu 499,5 milljónum króna til 3.732 lífeyrisþega, sem er um 3,9% hækkun greiðslna frá árinu 1998. Skiptust lífeyrisgreiðslur þannig á árinu 1999: Lífeyrir vegna áunninna réttinda í sjóðnum, nam 408,4 milljónum, þar af ellilífeyrir 280,8 milljónum, makalífeyrir 37,7 milljónum, örorkulífeyrir 78,2 milljónum og barnalífeyrir 11,6 milljónum. Lífeyrir greiddur af ríkissjóði, þ.e lífeyrir til bænda fæddra 1914 og fyrr (36,5 milljónir) og maka þeirra (54,6 milljónir), nam samtals 91,1 milljónum króna og lækkar hann nú um 6,4% á milli ára.