Athugasemd frá LL vegna leiðaraskrifa í Morgunblaðinu.

Í leiðara Morgunblaðsins í gær, sem ber heitið “Frjáls val um lífeyrissjóði”, segir svo m.a.: “Rök hafa verið færð fyri því að skyldugreiðslur í fastákveðinn lífeyrissjóð brjóti bæði í bága við Mannréttindarsáttmála Evrópu og eignarréttarákvæði stjórnarskárinnar. Það er Alþingis að sjá til þess að öllum vafa sé eytt í því efni.”

Hér virðist sannleikanum hagrætt til að þjóna málstaðnum. Þvert á móti hefur Mannréttindadómstóll Evrópu nú nýlega vísað frá kæru tveggja starfsmanna fyrirtækis gegn íslenska ríkinu, sem vildu ekki una dómi Hæstaréttar að greiða í fastákveðinn lífeyrissjóð, en með dómi Hæstaréttar frá 26. september 1996 var ekki talið að skylduaðild starfsmannanna að lífeyrssjóði og takmörkun á valfrelsi þeirra um lífeyrissjóð bryti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu byggðu kærendur á því að niðurstaðan í dómi Hæstaréttar bryti gegn rétti þeirra til að standa utan félaga sem verndaður væri af 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem skylda til að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld í fastákveðinn lífeyrissjóðinn bryti gegn eignarréttarákvæðinu í 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann. Mannréttindadómstóllinn féllst á hvorugt kæruefnið. Hvað varðar brot gegn 11. gr. taldi dómstóllinn að skylduaðild að lífeyrissjóði væri bundin í lög, hún hefði það réttmæta markmið að stuðla að vernd réttinda annarra með stofnun samtryggingasjóða og ekki væri gengið of langt til ná þessu markmiði. Með þessu væru uppfyllt skilyrði takmarkana á félagafrelsi samkvæmt 2. mgr. 11. gr. Hvað varðaði kæru um brot á eignarréttarákvæðinu vegna greiðslu iðgjalda, taldi Mannréttindadómstóllinn að um væri að ræða almennar takmarkanir á eignarrétti sem rúmuðust innan marka 2. mgr. 1. gr. ákvæðisins sem heimilar takmarkanir á þessum rétti, enda væru þær lögmæltar, settar í þágu almannahagsmuna og gengju ekki lengra en nauðsynlegt mætti telja.