Ársfundur Fjármálaeftirlitsins verður haldinn í dag í Salnum í Tónlistarhúsi Kópavogs. Á fundinum verður kynnt nýútkomin ársskýrsla Fjármálaeftirlitsins og gerð grein fyrir starfsemi eftirlitsins á tímabilinu 1. júlí 2000 til 30. júní 2001, auk þess sem fjallað verður um helstu áherslur í starfi þess.
Ennfremur verður fjallað um þróun og horfur á helstu fjármálamörkuðum og vikið að stöðu fjármálastofnana hér á landi. Meðal annars verður fjallað um eiginfjárstöðu lánastofnana, starfsemi á vátryggingamarkaði, fjárfestingar lífeyrissjóða, aukið eftirlit á verðbréfamarkaði og reikningsskil fjármálafyrirtækja. Til fundarins hefur verið boðið fulltrúum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða, auk fyrirtækja sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands hf., sem og fulltrúum ýmissa opinberra stofnana og fjölmiðla. Ársskýrsla Fjármálaeftirlitsins mun liggja frammi á fundinum, en einnig verður hægt að nálgast hana á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is sem og á skrifstofu eftirlitsins að Suðurlandsbraut 32 í Reykjavík. Eins og áður segir er fundurinn haldinn í Salnum í Tónlistarhúsi Kópavogs að Hamraborg 6 í Kópavogi og hefst hann kl. 16.00 í dag.