Eins og áður hefur komið fram hér á fréttasíðunni virðist allt benda til þess að á árinu 2001 hafi fjárfestingarárangur lífeyrissjóðanna verið frekar slakur. Af sex þróuðum löndum sem sérstaklega voru skoðuð er Ástarlía eina landið, þar sem raunávöxtunin varð jákvæð. Þetta kemur fram í janúarhefti tímaritsins Pensions & Investments.
Bresku lífeyrissjóðirnir komu verst úr í þessum samanburði með um 10% neikvæða ávöxtun, sem gerir um neikvæða 11,8% raunvöxtun, þegar tekið hefur verið tillit til verðbólgu. Þetta er versti fjárfestingarárangur sjóðanna síðan 1990 þegar ávöxtunin var neikvæð um 11%. Ávöxtun bresku lífeyrissjóðanna var að meðaltali neikvæð um 1,8% á árinu 2000. Japönsku lífeyrissjóðirnir sýndu 6,8% neikvæða ávöxtun á síðasta ári. Vegna verðhjöðnunar í Japan var raunávöxtun hins vegar neikvæð um 5,8%. Fjárfestingarárangurinn í fyrra var betri en árið 2000, þegar ávöxtunin var neikvæð um 9,1%. Raunávöxtun lífeyrissjóða í Sviss var neikvæð í fyrra um 7,4% og er þá tekið mið af ávöxtun í eignasafni 80 lífeyrissjóða. Á árinu 2000 var ávöxtunin hins vegar jákvæð um 3%. Ávöxtun bandarískra lífeyrissjóða var neikvæð í fyrra um 3,8% sem er 5,7% neikvæð raunávöxtun að teknu tilliti til verðbólgu. Þetta er verri úrkoma en á árinu 2000 þegar ávöxtunin var neikvæð um 0,3%. Neikvæð raunávöxtun lífeyrissjóða í Bretlandi var 1,3% í fyrra sem er mikið fall miðað við að ávöxtunin var jákvæð um 7,4% á árinu 2000. Í Ástralíu var raunávöxtunin hins vegar jákvæð um 4,2%. Hvað sem öðru líður tókst þó lífeyrissjóðum í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu að sýna betri fjárfestingarárangur en helstu viðmiðunarvísitölur. Þannig fór Standard&Poor 500 vísitalan niður um 11,88% í fyrra og Morgan Stanley Capital International Europe Australasia Far East vísitalan féll um 21,44% á síðasta ári. Líkur eru á því að raunávöxtun íslensku lífeyrissjóðanna verði væntanlega neikvæð í fyrra annað árið í röð eftir jákvæða raunávöxtun sjóðanna í áratugi. Árið 2000 var raunávöxtun lífeyrissjóðanna neikvæð um 0,7% en hafði árið áður verið jákvæð um 12%. Eðlilegt er hins vegar að líta á raunávöxtun sjóðanna yfir lengra tímabil en eitt ár og ljóst er að meðalávöxtun síðustu fimm ára var mjög ásættanleg. Erfitt er að bera saman ávöxtunartölur lífeyrissjóða hér á landi miðað við önnur Evrópulönd þar sem eignasöfn sjóðanna eru mismunandi. Hér á landi er einungis fimmtungur af eignum lífeyrissjóðanna ávaxtaður erlendis. Innan við þriðjungur eigna sjóðanna er í hlutabréfum og er það mjög lágt hlutfall miðað við aðrar þjóðir. Þannig er ljóst að þegar upp er staðið verður fjárfestingarárangur íslensku lífeyrissjóðanna vegna ársins 2001 mun betri en hjá nágrannaþjóðum okkar.