Aðeins 927 m.kr. í erlend verðbréfakaup í október s.l. Kaupin hafa ekki verið lægri í a.m.k. 2 ár.

Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands hefur sent fra sér yfirlit yfir viðskipti við útlönd með erlend verðbréf. Þar kemur fram að nettókaupin hafi verið mjög lítil í október s.l. Í ljósi þessarar staðreyndar er þeim mun undarlegri þau ummæli Birgis Ísleifs Gunnarssonar,seðlabankastjóra, í fjölmiðlum í síðustu viku, að lífeyrissjóðirnir hafi farið of geyst í erlendar fjárfestingar, sem veikt hafi gengi krónunnar.

Tekið er fram af hálfu bankans að nettókaupin hafi verið lítil í októbermánuði sem má að nokkru leyti rekja til þess að erlendir hlutabréfamarkaðir hafa verið nokkuð hvikir Fyrstu tíu mánuði þessa árs voru nettókaup um 37,9 ma.kr., en á sama tíma í fyrra um 22,1 ma.kr. 14,6% af eignum lífeyrissjóða var í erlendum gjaldmiðlum um síðustu áramót, en eru nú um 23% af eignum. Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna í erlendum gjaldmiðlum voru nú í vor auknar úr 40% í 50% af eignum. Enn er því langt í land að þær heimildir lífeyrissjóðanna að fjárfesta erlendis verði nýttar að fullu, enda líta sjóðirnir svo á að fjárfestingar erlendis séu í eðli sínu langtímamarkmið. Langflestir lífeyrissjóðirnir eru enn langt undir 40% mörkunum. Það er því rangt sem haldið hefur verið fram, að með auknum heimildum lífeyrissjóðanna hafi sjóðirnir fjárfest óeðlilega mikið erlendis síðustu mánuðina og þar með stuðlað að gengissigi krónunnar, enda sýna nýjustu tölur að nettókaup með erlend verðbréf í októbermánuði s.l.voru aðeins 927 m.kr., sem er eins og áður segir það lægsta í einum mánuði a.m.k síðustu tvö árin.