Aðalfundur Landssamtaka lífeyrissjóða var haldinn í gær á Grand Hótel Reykjavík. Auk venjulegra aðalfundarstarfa flutti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, ræðu um sem nefndist Lífeyrissjóðir á breyttum tímum. Þórir Hermannsson var endurkjörinn formaður LL.
Verður væntanlega hægt að nálgast ræðu ráðherrans á heimasíðu LL innan fárra daga. Arnar Sigurmundsson (Lífeyrissjóður Vestmannaeyja), Friðbert Traustason (Lífeyrissjóður bankamanna), Margeir Daníelsson (Samvinnulífeyrissjóðurinn) og Þórir Hermannsson (Lífeyrissjóðurinn Lífiðn) áttu allir að ganga úr stjórn en voru endurkjörnir til næstu tveggja ára. Auk þess eiga sæti í stjórn LL: Árni Guðmundsson (Lífeyrissjóður sjómanna), Haukur Hafsteinsson (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins), Víglundur Þorsteinsson (Lífeyrissjóður verzlunarmanna) og Þórunn Sveinbjörnsdóttir (Lífeyrissjóðurinn Framsýn). Að loknum aðalfundi kom hin nýkjörna stjórn LL saman til fundar og var Þórir Hermannsson endurkjörinn formaður LL, Haukur Hafsteinsson, varaformaður og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, ritari. Í upphafi fundar flutti Þórir Hermannsson, formaður LL, ávarp. Lokaorð hans voru á þessa leið: Ég hef þá sannfæringu að Landssamtök lífeyrissjóða hafi allt frá stofnun verið að vinna öflugt og gott starf. Ég hef talið það vera megin markmið LL að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum lífeyrissjóðanna og að eftir megni sé hverju sinni reynt að leysa úr þeim verkefnum og vandamálum er þá snerta. Lífeyrissjóðirnir búa við það að mjög auðvelt er að gagnrýna þá og öll umfjöllun um þá í fjölmiðlum getur óumdeilanlega verið mjög viðkvæm. Það er m.a. ástæða þess að ég lít á það sem markmið að samtökin sinni skyldum sínum ákveðið og af einurð, en án þess þó að sífellt sé verið að blása í lúðra við minnsta tilefni. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hafi gefist vel til þessa og sé því farsæl stefna.