Ábending um ávöxtun ALVÍB og Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga .

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri ALVÍB og Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga hefur sent frá sér meðfylgjandi ábendingu vegna greinar í Morgunablaðinu s.l. miðvikudag um ávöxtun þessara sjóða, en tölur um ávöxtun þeirra er úr skýrslu Fjármálaeftirlitsins um lífeyrissjóði.

Til þess að hægt sé að bera ávöxtun þessara sjóða saman við ávöxtun annarra lífeyrissjóða er nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi: ALVÍB. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins eru ávöxtunartölur ekki nákvæmar því þar er reiknað með því að öll iðgjöld berist á miðju ári. Þessi aðferð er ágæt nálgun fyrir stærri sjóði þar sem iðgjöld eru lág í hlutfalli við stærð sjóðs en aðferðin er hins vegar óhagstæð fyrir sjóði sem eru að vaxa hratt og iðgjöld eru há í hlutfalli við stærð sjóðanna. ALVÍB, Almennur lífeyrissjóður VÍB, hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum (iðgjöld voru að meðaltali 33% af eignum á tímabilinu) og þess vegna er óhagstætt fyrir sjóðinn að reikna ávöxtun með þessum hætti. Ef ávöxtun ALVÍB hefði verið reiknuð miðað við innborganir iðgjalda (eftir því hvenær iðgjöld bárust) hækkar ávöxtun sjóðsins að meðaltali um 1% á ári á tímabilinu 1995-2000. Í öðru lagi metur ALVÍB skuldabréf sín á markaðsverði á meðan flestir aðrir lífeyrissjóðir meta skuldabréf sín miðað við þau vaxtakjör sem voru í gildi við kaup. Vextir hækkuðu mikið á árunum 1999 og 2000 og markaðsverð skuldabréfa lækkaði. Ef skuldabréf ALVÍB hefðu verið metin miðað við vexti á kaupdegi, eins og hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum, hefði raunávöxtun sjóðsins verið umtalsvert hærri árin 1999 og 2000 eða 13,9% samtals í staðinn fyrir 4,6%. Ef tekið er tillit til ofangreindra atriði var ávöxtun ALVÍB 6,9% á tímabilinu 1995 til 2000 en ekki 4,9% eins og kemur fram í skýrslu Fjármálaeftirlitsins og Morgunblaðinu. Lífeyrissjóður arkitekta og tæknifræðinga. Í grein Morgunblaðsins er ávöxtun Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga á tímabilinu 1995-2000 sögð vera 3,9%. Þessi ávöxtunartala byggir á útreikningum Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu 1.7.1998 til 31.12.2000 en sjóðurinn hóf starfsemi 1.7.1998 við sameiningu Lífeyrissjóðs arkitekta og Lífeyrissjóðs Tæknifræðingafélags Íslands. Ef ávöxtun Lífeyrissjóðs arkitekta og tæknifræðinga hefði verið reiknuð 1995-2000 og stuðst við ávöxtun fyrirrennara sjóðsins á fyrri hluta tímabilsins hefði ávöxtun hans verið 6,5% á ári að jafnaði. Einnig má bæta við að Lífeyrissjóður arkitekta og tæknifræðinga metur skuldabréf sín á markaðsverði en ekki miðað við vaxtakjör við kaup eins og flestir aðrir lífeyrissjóðir. Ef ávöxtun sjóðsins hefði verið reiknuð miðað við upphafleg vaxtakjör hefði raunávöxtun sjóðsins 1995-2000 verið ennþá hærri eða 8,3% á ári að jafnaði en ekki 3,9%.