80% ánægðir með starfsendurhæfingu á vegum TR

Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskólans voru 80% þeirra sem vísað var í starfsendurhæfingu á vegum Trryggingastofnunar ríkisins ánægðir með hana og um helmingur hafði öðlast aukið sjálfstraust og aukna sjálfsbjargarviðleitni við endurhæfinguna.

Kostnaður vegna örorku er mikill og er starfsendurhæfing áhrifarík leið til að fyrirbyggja ótímabæra örorku. Því kom Tryggingastofnun ríkisins (TR) á fót teymi til að meta endurhæfingarmöguleika óvinnufærs fólks og gerði þjónustusamninga við Hringsjá (Starfsþjálfun fatlaðra) og Reykjalund um starfsendurhæfingarúrræði. Þetta endurhæfingarstarf hófst haustið 1999 og hefur reynst auka starfshæfni og draga úr örorku. Endurhæfingarlæknir veitir matsteyminu forystu. Í því eru, auk læknisins, félagsráðgjafi, sálfræðingur og sjúkraþjálfari. Læknirinn ákvarðar hversu marga í teyminu hver og einn sem þangað er vísað þarf að hitta. Teymið metur hvort endurhæfing sé líkleg til að auka starfshæfni mats Tilgangur könnunarinnar var að kanna viðhorf matsþega til endurhæfingarmats og starfsendurhæfingarúrræða á vegum TR og áhrif þessa ferlis á sjálfstraust og sjálfsbjargarviðleitni þeirra. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði viðhorf matsþega fyrir TR í október 2001. Reynt var að hafa upp á þeim 109 einstaklingum sem metnir höfðu verið af matsteymi á árinu 2000 og tekið viðtal við þá í síma. Við úrvinnslu var notuð lýsandi tölfræði. Svör fengust frá 83 (76,1%) af matsþegum. Fjörtíu (48,2%) hafði að tillögu matsteymis verið vísað í atvinnulega endurhæfingu á Reykjalundi, 19 (22,9%) á tölvunámskeið í Hringsjá og 15 (18,1%) í fullt starfsnám í Hringsjá. Fjórir af hverjum fimm reyndust ánægðir með þá starfsendurhæfingu sem TR hafði boðið þeim upp á á Reykjalundi eða í Hringsjá. Rúmlega helmingur þeirra sem metnir voru af matsteyminu töldu það hafa verið gagnlegt fyrir sig að hitta teymið og 59% matsþega töldu teymið hafa vísað á úrræði sem þeir vissu ekki um fyrir. Um helmingur þátttakenda sagði sjálfstraust sitt og sjálfsbjargarviðleitni hafa aukist frá því mat teymis fór fram.