Aukning var á viðskiptum með erlend verðbréf fyrstu sjö mánuði þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra. Hreint fjárútstreymi til útlanda vegna viðskipta með erlend verðbréf nam í júlí s.l. alls 2.543 m.kr. sem er hækkun miðað við júlímánuð í fyrra, þegar nettókaupin námu alls 1.650 m.kr.
Nettókaup fyrstu sjö mánuði þessa árs voru um 28,7 ma.kr., en á sama tíma í fyrra voru þau einungis 17,9 ma.kr. Ljóst er því á þessum tölum að viðskipti við útlönd með erlend verðbréf hafa í heildina aukist nokkuð mikið á þessu ári borið saman við fyrstu sjö mánuði síðasta árs eða um 51,4%. Hreint fjárútstreymi fyrstu fjóra mánuði þessa árs var 5.361 m.kr. að meðaltali á mánuði. Nú sem áður eru viðskiptin mest í hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum. Að sjálfsögðu koma fleiri að þessum kaupum en lífeyrissjóðirnir. Í fyrra námu kaupin í ágústmánuði 1.023 ma.kr. og verður því forvitnilegt að skoða tölurnar yfir ágúst á þessu ári, þegar þær liggja fyrir, sem ætti að vera í lok þessa mánaðar. Verð innlendra hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands eru enn á niðurleið og viðskiptin eru því miður ekki mikil. Hvort lífeyrssjóðirnir sjá nú einhver sóknarfæri á innlendum hlutabréfamarkaði er erfitt um að spá en líkur eru hins vegar á því að kaup sjóðanna í erlendum verðbréfum eigi eftir að aukast síðustu mánuði þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra og að aukningin verði því a.m.k. jafnmikil og hún er þegar orðin eða 51% á milli ára.