Í ræðu Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra, á aðalfundi Sambands íslenskra viðskiptabanka nú fyrir helgi kom fram að í könnun sem fyrirtækið PriceWaterhouseCoopers gerði í ársbyrjun fyrir fjármálaráðuneytið á þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði hafi komið fram að rúmlega 27% þjóðarinnar nýtir sér nú þegar möguleikann á tveggja prósenta viðbótarsparnaðinum.
Fjármálaráðherra gat þess að reynst hafi erfitt að meta þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði þar sem upplýsingar lægju ekki fyrir á einum stað, en getgátur hafi verið um að þátttakan gæti verið um 15% þegar á heildina er litið. Vitað væri að rúmlega þriðjungur ríkisstarfsmanna hafi aukið við lífeyrissparnað sinn með þessum hætti. Í könnun sem sem fyrirtækið PriceWaterhouseCoopers gerði í ársbyrjun fyrir fjármálaráðuneytið á þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði kæmi sú ánægjulega staðreynd í ljós að þátttakan virðist vera meiri en framangreindar getgátur segðu til um. Fram kæmi í könnuninni að rúmlega 27% þjóðarinnar nýti sér nú þegar möguleikann á tveggja prósenta viðbótarsparnaðinum. Í könnuninni kæmi ennfremur fram að fleiri konur en karlar hafi sparað í þessu formi, flestir þátttakendur séu á aldursbilinu 30-49 ára og virðist dreifingin jöfn á landinu öllu. Jafnframt hefði í könnuninni verið athugaður ásetningur fólks til þess að bæta 2% við lífeyrissparnað sinn, og í ljós hefði komið að rúm 41% aðspurðra hefðu slíkt í hyggju. Þá gat fjármálaráðherra þess að síðast en ekki síst hefði komið fram í könnuninni að 44% þeirra sem spurðir voru töldu mjög eða frekar líklegt að þeir myndu nýta sér þann möguleika að verja hærra hlutfalli af skattskyldum tekjum til viðbótarlífeyrissparnaðar ef slíkt væri heimilt.