17,8% raunávöxtun á árinu 1999 og 7% hækkun lífeyris hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum.

Á árinu 1999 gekk rekstur Sameinaða lífeyrissjóðsins afar vel. Nafnávöxtun hans var 24,4% og raunávöxtun 17,8%. Þetta er besta ávöxtun í sögu sjóðsins og skapar skilyrði til að auka réttindi sjóðfélaga.

Á ársfundi Sameinaða lífeyrissjóðsins, sem haldinn var s.l. mánudag, var samþykkt að auka áunnin stig sjóðfélaga og þar með almennar lífeyrisgreiðslur um 7%. Það þýðir að lífeyrisgreiðslur hækka 1. júlí 2000 um 7% umfram verðbólgu þar sem allur lífeyrir sem sjóðurinn greiðir er verðtryggður. Þessi aukning er samsvarandi því að margföldunarstuðull sjóðsins sé hækkaður úr 1,5 í 1,6. Hinn 1. október 1999 var tekið upp aldurstengt réttindakerfi hjá sjóðnum. Með því að taka upp nýtt réttindakerfi brást Sameinaði lífeyrissjóðurinn við nýjum lögum um frelsi sjálfstæðra atvinnurekenda til að velja sér lífeyrissjóð. Nýja kerfið varðveitir alla helstu kosti þess gamla og býður að auki samkeppnishæf lífeyrisréttindi og réttlátari skiptingu ávöxtunar og iðgjalds. Þessi nýjung hefur mælst mjög vel fyrir og greiða nú um 500 sjóðfélagar iðgjöld til nýja kerfisins. Á árinu 1999 hóf sjóðurinn fyrstur almennra lífeyrissjóða að greiða fjölskyldubætur við fráfall ungra sjóðfélaga. Um er að ræða eingreiðslu sem getur samsvarað árslaunum sjóðfélagans. Á árfsundinum kom fram að rekstur séreignardeildar sjóðsins hefur gengið afar vel. Í samvinnu við Lífeyrissjóðinn Lífiðn og Verðbréfastofuna löggilt verðbréfafyrirtæki bauð sjóðurinn á árinu 1999 upp á 5 sparnaðarleiðir. Í byrjun árs 2000 var ákeðið í samvinnu við bandaríska sjóðafyrirtækið Janus að bjóða í séreignardeild upp á þrjár nýjar fjárfestingarleiðir sem byggja á að fjárfesta í tæknifyrirtækjum. Ávöxtun þeirra árið 1999 var mjög góð eða frá 60% upp í 211% í dollurum talið. Eftir réttindaukninguna er áætlað að eignir sjóðsins umfram skuldbindingu séu 2,7 mia kr. eða 4% af heildarskuldbindingu. Hefur þá verið tekið tillit til þess að 7% aukning réttinda kostar sjóðinn 2,5 mia kr. Sameinaði lífeyrissjóðurinn er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins og námu eignir hans um síðustu áramót 39,6 mia kr. og jukust þær um 28,3% á árinu.


Úr fréttatilkynningu Sameinaða lífeyrissjóðsins.